Suðurnesjamennirnir og þriggja stiga skytturnar Magnús Þór Gunnarsson og Marel Örn Guðlaugsson eiga afmæli í dag. Karfan.is óskar þessum vélbyssum innilega til hamingju með daginn.
Marel Örn er 41 árs í dag en hann er leikjahæsi Íslendingurinn í úrvalsdeild og hefur sett þá ófáa þristana í sinni tíð, fyrst í Röstinni og síðar að Ásvöllum. Magnús Þór er enn að og vermir 4. sæti yfir flestar þriggja stiga körfur skoraðar í íslensku deildarkeppninni en Magnús er 32 ára í dag.
Þessu er ekki lokið því tvær kempur til viðbótar eiga einnig afmæli í dag. Haukamaðurinn og fyrrum landsliðsmaðurinn Pálmar Sigurðarson á stórafmæli í dag en kappinn er fimmtugur og Eggert Maríuson er 41 árs en hann lék lengst af með ÍR en einnig Haukum, ÍA, KR og Breiðablik.
Vestanhafs er líka verið að fagna afmælisdögum, Juwan Howard er fertugur en þessi fyrrum leikmaður Michigan skólans lét fyrst til sín taka í NBA deildinni árið 1994. Steve Nash er svo 39 ára gamall og er enn að með LA Lakers. Af nýgræðingum í NBA er Isaiah Thomas 24 ára en hann leikur með Sacramento Kings.



