Í gærkvöldi tóku Njarðvíkingar á móti Snæfelli í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn var Snæfell í öðru sæti deildarinnar en Njarðvíkurstúlkur í því sjöunda. Snæfellsstúlkur gengu með sigur af hólmi, og það öruggan 17 stiga sigur, 61-78 í gærkvöldi. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells sagði sína liðsmenn þó full hikandi í upphafi síðari háflleiks.
,,Við erum ekki búin að gefa upp á bátinn að ná 1. sætinu í deildinni enda nóg eftir af mótinu. Það eru einhver 16 stig í boði og við þurfum að standa okkar plikt. Ef við gerum það þá geta góðir hlutir gerst því það eru þrír sigrar á milli okkar og Keflavíkur svo það nægir ekki að jafna þær að stigum,” sagði Ingi Þór en Snæfell leiddi allan tímann í Ljónagryfjunni í gær.
,,Njarðvíkingar gerðu áhlaup og við vorum full hikandi í upphafi síðari hálfleiks sem gaf grænum blóð á tennurnar en þær komust samt ekki nær en einhver 7-8 stig svo við vorum með þetta í ísskápnum nánast allan tímann.”
Næsti leikur Snæfells er á laugardag þegar liðið mætir KR. ,,Það er leikur á móti einu af tveimur heitustu liðum deildarinnar þar sem McCallum er í miklu stuði. Við unnum þær síðast í Hólminum en þurfum að spila betur á laugardag en við höfum gert undanfarið. KR hefur verið að ná í góða sigra svo það verður hörku barátta næsta laugardag.”
Fyrstu mínúturnar var hálflgert jafnræði með liðunum en Snæfellskonur enduðu síðustu fjórar mínútur fyrsta fjórðungs á 12-0 áhlaupi og staðan 8-19 gestunum í vil eftir fyrsta fjórðung.
Lele Hardy skoraði öll átta stiga Njarðvíkur í fyrsta leikhluta, sem er ekki góð merki fyrir íslenskan körfuknattleik, því miður.
Njarðvíkurkonur brettu upp ermar sóknarlega í öðrum leikhluta og skoruðu 20 stig í honum, en vörnin lagaðist ekki og Snæfellskonur skoruðu 24 stig í leikhlutanum þannig að staðan var 28-43 í hálfleik og fátt stefndi í spennandi leik í Ljónagryfjunni þetta kvöldið.
Grænklæddar virtust ætla að gera áhlaup í byrjun síðari hálfleiks og hófu þriðja leikhlutann á 10-2 “runni” og minnkuðu muninn í 7 stig en á augnabliki varð munurinn aftur 17 stig. Eftir þriðja fjórðung stóðu leikar 46-62 Snæfelli í vil.
Úrslitin lágu nokkurn veginn fyrir en Snæfell vann fjórða og síðasta leikhlutann með 16 stigum gegn 15 og vann því nokkuð þægilegan 17 stiga sigur, 61-78.
Kieraah Marlow skoraði 24 stig og tók 15 fráköst í liði gestanna, Hildur Kjartansdóttir var með 16 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar og Berglind Gunnarsdóttir bætti við 13 stigum. Lele Hardy skoraði rúmlega 57% stiga Njarðvíkurkvenna með 35 stig af 61 en hún reif einnig 16 fráköst og fiskaði 11 villur. Næst á eftir henni í liði Njarðvíkur kom Svava Ósk Stefánsdóttir með 7 stig og 6 fráköst.
Umfjöllun: AÁ
Mynd/ [email protected] – Salbjörg Ragna Sævarsdóttir með boltann í Snæfellsteignum, Hildur Björg Kjartansdóttir bíður átektar í Snæfellsvörninni.



