Það er í mörg horn að líta í Domino´s deild karla í kvöld, Njarðvíkingar freista þess að vinna fyrsta heimasigurinn í deild gegn Grindavík í fimm ár. Ísfirðingar munu reyna við sigur í Toyota-höllinni gegn heitum Keflvíkingum, KR heldur í Hólminn og mætir Snæfell sem tapað hefur tveimur leikjum í röð á heimavelli í deildinni og í Hertz Hellinum verður borist á banaspjót þegar ÍR tekur á móti Skallagrím. Við rýndum aðeins í leiki kvöldsins.
Njarðvík-Grindavík
Njarðvíkingar hafa unnið tvo síðustu deildarleiki sína líkt og gestir þeirra úr Grindavík. Gulir hafa þó haft Njarðvíkinga í skrúfstykki upp á síðkastið en síðasti heimasigur Njarðvíkur í deild gegn Grindavík var þann 18. mars árið 2008! Grænir eru því væntanlega komnir með útbrot af biðinni en það verður á brattann að sækja gegn vel skipuðum Íslandsmeisturum úr Röstinni sem hafa unnið síðustu fjóra útileiki sína í röð.
Snæfell-KR
Þó KR geti náð Snæfell að stigum og jafnvel tekið fram úr þeim er fátt annað en kraftaverk sem gæti valdið því að Snæfell myndi klúðra þessari innbyrðisviðureign. Snæfell vann fyrri leik liðanna 63-104 í DHL Höllinni og ekki líklegt að Hólmarar tapi með 42 stiga mun heima þó svo þeir hafi í reynd tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum í Stykkishólmi. KR-ingar eru einnig á höttunum eftir mikilvægum stigum þar sem liðið hefur tapað síðustu tveimur deildarleikjum.
Keflavík-KFÍ
Keflvíkingar eru á lengstu sigurgöngunni í deildinni um þessar mundir og hafa unnið fjóra deildarleiki í röð, merkilegt en satt eru Ísfirðingar á næstlengstu sigurgöngunni þar sem þeir hafa unnið þrjá síðustu leiki. Því staðhæfist það hér með að tvö heitustu lið deildarinnar í dag eru að mætast í Toyota-höllinni en þar hefur KFÍ einu sinni áður tekist að ná í sigur en það var árið 1998 og fór sá leikur 78-85 fyrir KFÍ.
ÍR-Skallagrímur
ÍR hefur unnið flesta Íslandsmeistaratitla allra liða og sitja nú í fallsæti, Herbert Arnarson er kominn við stýrið og hans fyrsti stýrimaður er Steinar Arason. Frumraun þeirra kappa saman í kvöld er gegn Borgnesingum sem tefla aðeins fram einum erlendum leikmanni eftir að Haminn ákvað að segja skilið við fagmennsku og gerast dólgur. ÍR hefur tapað síðustu sex deildarleikjum sínum og eru á botni deildarinnar. Með sigri í kvöld geta þeir sett Tindastól á botninn um hríð en sigur hjá Skallagrím að sama skapi getur tekið enn eitt skrefið í átt að tryggja sér bæði sæti í úrslitakeppninni og í deild. Borgnesinga bíður ærinn starfi en þeir hafa ekki unnið í Breiðholti síðan 2006.
Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15




