Eyþór Sæmundsson fer fyrir íþróttadeild Víkurfrétta, vf.is, á Suðurnesjum en þar í bæ verða tveir leikir í kvöld. Karfan.is fékk Eyþór til að rýna í leiki kvöldsins og spáði hann því að Keflavík myndi gleyma búningunum sínum og gestalið KFÍ yrði að lána þeim búninga. Eyþór þykir öllu jöfnu nokkuð skarpskyggn en sjáum til hvort hann hafi strokið kristallskúlunni rétt þetta skiptið:
Njarðvík-Grindavík
Það er gríðarlega mikilvægt að Njarðvíkingar fari að sýna stöðuleika. Þeirra bíður þó erfitt verkefni í kvöld þegar heitir Grindvíkingar koma í heimsókn. Þetta verður jafn leikur þar sem Elvar Friðriksson setur 30 stig. Jóhann Árni verður svo mikilvægur hjá gulum en ég spái framlengingu í Ljónagryfjunni og sigri heimamanna.
Snæfell-KR
Nonni Mæju finnur fjölina sína aftur en það dugir ekki til. KR-ingar koma brjálaðir til leiks eftir tap gegn Keflavík á dögunum. Einnig eiga þeir harma að hefna eftir slátrun í síðustu viðureign liðanna. Eitthvað segir mér að Ingi Þór verði ósáttur við dómara leiksins.
Keflavík-KFÍ
Keflvíkingar munu leika í búningum KFÍ og hafa öruggan sigur. Valur Orri mun gæla við þrefalda tvennu og einhver annar af ungu strákunum mun sýna lipra takta í leiknum. Tvær til þrjár tröllatroðslur munu líta dagsins ljós í Sláturhúsinu svo það er vissara að mæta snemma.
ÍR-Skallagrímur
Ef Herbert Arnarson væri að spila í kvöld þá væri þetta öruggur 1 á Lengjunni. Herbert er hins vegar með mikið svægi og það mun smita út frá sér til ÍR-inga á parketinu. ÍR tekur þetta tæpt en Borgnesingar eru veikir fyrir eftir brotthvarf Haminn.



