spot_img
HomeFréttirHelena: Vörnin okkar aðalsmerki var léleg

Helena: Vörnin okkar aðalsmerki var léleg

,,Ég bara skil ekki hvað eiginlega gerðist í þessum síðasta leik,” sagði Helena Sverrisdóttir í snörpu samtali við Karfan.is en í gærkvöldi lauk Good Angels Kosice keppni í riðlakeppni meistaradeildar Evrópu. Good Angels unnu riðilinn sinn og var Helena svekkt með tapið á útivelli gegn Municipal Targoviste.
 
,,Við höfðum ekki tapað síðan í nóvember þannig að maður er svolítinn tíma að kyngja þessu. Targoviste voru að spila upp á líf og dauða en við öruggar með heimaleikjarétt í næstu umferð eftir riðlakeppnina. Með sigri í gær hefðum við getað tryggt okkur annað sætið yfir alla riðlakeppnina en áttum bara mjög slæmt kvöld,” sagði Helena og kenndi vörninni um.
 
,,Nánast allir leikmenn í liðinu okkar voru í basli og vörnin sem er okkar aðalsmerki var léleg. Við hittum mjög illa og þegar á leið var allt með Targoviste. Mikill hávaði var í húsinu og þær fengu mikið og gott sjálfstraust eftir fyrri hálfleikinn. Við reyndum að koma til baka en bara settum ekki skotin niður og náðum ekki að stoppa neitt í vörninni,” sagði Helena en það er þegar komið í ljós hvaða liði Good Angels mætir í næstu umferð.
 
Good Angels mætir Avenida í næstu umferð þar sem vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í lokaúrslit keppninnar sem fram fer í Ekateringburg í Rússlandi í mars. ,,Avenida skiptu nýlega um kana og þær voru eina liðið í riðlakeppninni sem vann Ekateringburg,” sagði Helena svo nokkuð víst er að andstæðingurinn er sterkur.
 
Fyrsta viðureign Good Angels og Avenida fer fram þann 19. febrúar næstkomandi á heimavelli Good Angels.
  
Fréttir
- Auglýsing -