spot_img
HomeFréttirZeglinski sjóðandi í Grindavíkursigri

Zeglinski sjóðandi í Grindavíkursigri

Grindvíkingar styrktu stöðu sína á toppi Domino´s deildar karla í kvöld með 84-96 sigri á Njarðvík í Ljónagryfjunni. Grænir gerðu gulum skráveifu í kvöld en Sammy Zeglinski bar meistara Grindavíkur í átt að sigrinum með frábærri frammistöðu. Zeglinski setti niður 6 af 9 þristum sínum í leiknum og voru gulir ávallt skrefinu á undan í síðari hálfleik. Hér að neðan fer textalýsing úr leiknum og látum við hana standa sem umfjöllun kvöldsins en innan skamms detta inn viðtöl sem nálgast má á Karfan TV.
 
 
Stigahæstu menn Grindavíkur
Sammy Zeglinski 30 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson 17 stig og 7 fráköst
Aaron Broussard 17 stig og 10 fráköst
 
Stigahæstu menn Njarðvíkur
Nigel Moore 21 stig, 7 fráköst og 10 stoðsendingar.
Elvar Már Friðriksson 18 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.
 
4. leikhluti
 
Leik lokið…lokatölur 84-96 fyrir Grindavík. Sammy Zeglinski með 30 stig fyrir gula og Nigel Moore með 21 stig í Njarðvíkurliðinu.
 
Njarðvíkingar fá hér tæknivíti fyrir samskipti sín við dómara og það tvö stykki…Zeglinski jarðar auðvitað öll fjögur vítin og staðan 82-96. Grindavíkursigurinn er í höfn.
 
80-87 Baginski með þrist fyrir Njarðvík í spjaldið og ofan í…lafði lukka þarna í för en þá mætir Zeglinski hinum megin og svarar í sömu mynt, staðan 80-90 og tíu stiga múrinn ætlar að halda hjá Grindavík að því er virðis.
 
77-87 og 3mínútur til leiksloka…hér varð uppi smá reikistefna þegar Zeglinski sendi Elvar Már af krafti í gólfið og stuðningsmenn Njarðvíkur vönduðu dómurum leiksins ekki kveðjurnar fyrir vikið.
 
76-85 fyrir Grindavík og 3.30mín eftir í Ljónagryfjunni. Hörkuleikur hér í gangi en það er Zeglinski sem er munurinn hér á liðunum…beittur og svona vélbyssu má ekki gefa skot.
 
74-83 Þorleifur með körfu og fær villu að auki…setur niður vítið og 5.00mín eftir af leiknum.
 
74-77 Nigel Moore minnkar muninn með þrist fyrir Njarðvík. 74-80 en Zeglinski svarar í sömu mynt…þvílík byssa þessi drengur, búinn að setja niður 5 af 7 þristum sínum í kvöld.
 
71-75 og 7.00mín eftir af fjórða og Grindavíkingar ekki enn búnir að skora í leikhlutanum. Heimamenn að leika grimma vörn. Elvar Már kominn inn í Njarðvíkurliðið og Óli Ragnar farinn á bekkinn en hann hamaðist vel í Zeglinski sem setti nokkra risavaxna þrista í þriðja leikhluta.
 
69-75 Óli Ragnar skorar fyrir Njarðvíkinga og gulir gestirnir hafa í kvöld farið nokkuð illa með boltann en fyrstu stig Njarðvíkur í fjórða leikhluta komu eftir tapaðan bolta hjá Grindavík. 
 
Fjórði leikhluti er hafinn og hann opnar Ryan Pettinella fyrir Grindavík á vítalínunni þar sem hann misnotar bæði skotin, ekki hans sterka hlið á parketinu.
 
3. leikhluti
 
Þriðja leikluta er lokið…staðan 66-75 og Grindavík vann leikhlutann 30-26. Mikið skorað og Grindvíkingar búnir að raða niður þristum. Halda grænir í við toppliðið á lokasprettinum?
 
66-75 Sammy með Grindavíkurþrist!
 
66-72 Nigel Moore með tvö stig af línunni og 31 sek eftir þegar gulir halda í sókn…
 
64-70 og 1.00mín eftir af þriðja…
 
59-70 Jóhann Árni með þrist og Grindvíkingar láta þeim rigna hér í þriðja leikhluta…hittni gestanna er glimrandi og kominn vísir að Grindavíkursigri hér ef áfram heldur sem horfir.
 
57-67 og 3.00mín eftir af þriðja leikhluta. Grindvíkingar eru sprækari um þessar mundir og Þorleifur Ólafsson kom muninum aftur upp í 10 stig með þriggja stiga körfu.
 
55-61 Njarðvíkingar svara með 4-0 rispu.
 
51-61 Grindvíkingar með stolinn bolta sem endar í glæsilegri troðslu hjá Þorleifi Ólafssyni.
 
51-59 Seglinski með annan þrist og sex Grindavíkurstig í röð og 5.11mín eftir af þriðja leikhluta þegar Einar Árni tekur leikhlé fyrir Njarðvíkinga.
 
51-56 Seglinski með stóran Grindavíkurþrist langt fyrir utan og gulir eru fljótir að refsa heimamönnum í flestum tilfellum.
 
49-49 og 6.58mín eftir af þriðja og Broussard fer á línuna…49-51, setur bæði vítin og kominn með 10 stig í liði Grindavíkur.
 
47-47 Nigel Moore jafnar með þrist fyrir Njarðvíkinga og 7.23mín eftir af þriðja. 
 
44-45 Njarðvíkingar gera fyrstu fjögur stigin í síðari hálfleik og rúm mínúta liðin.
 
Þriðji leikhluti er að hrökkva í gang. Grindvíkingar byrja með Sammy, Jóhann, Þorleif, Aaron og Sigurð s.s. byrjunarliðið. Njarðvíkingar byrja með Elvar Már, Ágúst Orrason, Ólaf Jónsson, Nigel Moore og Marcus Van. 
 
Skotnýting liðanna í hálfleik

Njarðvík: Tveggja 30,7% – þriggja 37,5% og víti 75%
Grindavík: Tveggja 45% – þriggja 29,4% og víti 92,3%

2. leikhluti
 
40-45 Hálfleikur! Grindvíkingar áttu góðan lokasprett hér á fyrri háflleik. Jóhann Árni Ólafsson er með 12 stig hjá Grindavík í hálfleik og Elvar Már Friðriksson með 10 í Njarðvíkurliðinu.
 
40-45 og á tæpri mínútu komu Grindvíkingar með 6-0 dembu, 20 sekúndur til hálfleiks þegar Njarðvíkingar taka leikhlé fyrir sína síðustu sókn.
 
40-39 og 1.30 mín til hálfleiks…
 
Tilþrif leiksins til þessa voru að detta í hús, Marcus Van blokkaði Sammy Zeglinski upp í áhorfendapallana, glæsileg tilþrif. Leikhlé.
 
33-31 og vörn heimamanna í Njarðvík hefur verið að þéttast hér með hverri mínútunni, topplið Grindavíkur hefur verið fremur stirt hér í síðustu sóknaraðgerðum sínum. 4.09 mín til hálfleiks.
 
31-31 Elvar Már jafnar fyrir Njarðvík af vítalínunni og 6.00mín eftir af öðrum leikhluta. 
 
Pettinella að fá sína þriðju villu í Grindavíkurliðinu, hann fær lítið að athafna sig og oftar en ekki dæmdar villur á þennan sterka leikmann fyrir litlar sakir og í tvígang hér í fyrri hálfleik hefur það verið raunin!
 
26-29 Hjörtur Hrafn með Njarðvíkurþrist og grænir vinna svo boltann úr höndum Grindavíkur og Sverrir Þór tekur leikhlé. Það er að aukast enn við fjörið hérna…
 
23-27 Hjörtur Hrafn með sóknarfrákast og körfu eftir litla og netta pumpu sem kom Ómari Sævarssyni úr smá jafnvægi. 7.50mín eftir af öðrum leikhluta og gulir eru að spila fast í vörninni á heimamenn og ófeimnir við að fá villur.
 
21-25 Pettinella setur annað af tveimur vítaskotum sínum og mínúta liðin af öðrum leikhluta.
 
Annar leikhluti er hafinn…Njarðvíkingar byrja með boltann.

1. leikhluti

 
21-22 Fyrsta leikhluta lokið! Flott byrjun á leiknum og Jóhann Árni kominn með 10 stig í liði Grindavíkur en Nigel Moore með 8 stig í Njarðvíkurliðinu. Hér er mikið slegist í bakvarðastöðunum og Grindvíkingar hafa verið að þvinga Njarðvíkurbakkarana í vandræði en grænir hafa leyst það þokkalega. 
 
20-18 og 50 sekúndur eftir af fyrsta leikhluta.

16-16 Elvar með eitt stig af vítalínunni fyrir Njarðvíkinga eftir að dæmd var villa á Pettinella. Tók tröllið um 2 sekúndur að koma inn af bekknum og ná sér í villu.

15-13 Nigel Moore með Njarðvíkurþrist og 2.55mín eftir af fyrsta leikhluta. 

12-13 Sigurður Þorsteinsson með sóknarfrákast og skorar, fær villu að auki og setur vítið. 5.08mín eftir af fyrsta leikhluta og upphafsmínúturnar bara nokkuð fjörugar. 

 
10-10 Jóhann Árni jafnar metin með þrist en hann er kominn með 8 af 10 fyrstu stigum Grindavíkur, uxinn af Holtsgötu 19 að finna sig vel á gamla heimavellinum.
 
10-5 Marcus Van með annað stökkskotið sitt í Grindavíkurteignum sem vill niður. 
 
8-2 Njarðvíkingar byrja leikinn á tveimur þristum frá Nigel Moore og Elvari Má Friðrikssyni.


Byrjunarlið Njarðvíkur:
Elvar Már Friðriksson, Nigel Moore, Maciek Baginski, Ólafur Jónsson og Marcus Van.
Byrjunarlið Grindavíkur: Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussar og Sigurður G. Þorsteinsson. 

Fréttir
- Auglýsing -