spot_img
HomeFréttirÞór og Stjarnan mætast aðeins í annað sinn í kvöld

Þór og Stjarnan mætast aðeins í annað sinn í kvöld

Tveir athyglisverðir leikir eru á dagskránni í Domino´s deild karla í kvöld. Í Þorlákshöfn er risavaxinn slagur þar sem Þórsarar taka á móti Stjörnunni og verður þetta aðeins í annað sinn sem félögin mætast í deildarkeppni úrvalsdeildar í Þorlákshöfn. Liðin mættust fyrst í fyrra þar sem Stjarnan hafði 11 stiga útisigur. Í Skagafirði eigast svo við Tindastóll og Fjölnir og bæði glíma þau hart í baráttunni fyrir tilverurétti sínum í deildinni.
 
Þór Þorlákshöfn-Stjarnan
Menn selja sig dýrt í Þorlákshöfn í kvöld! Bæði lið stefna auðvitað á deildarmeistaratitilinn og er það vel raunhæft en bæði lið töpuðu síðasta deildarleik og Stjarnan búin að tapa tveimur deildarleikjum í röð. Liðin hafa einu sinni áður mæst í deildarleik í Þorlákshöfn en það var á síðasta tímabili þar sem Stjarnan hafði betur 86-97. Fyrir leikinn í kvöld er Þór í 3. sæti deildarinnar með 20 stig en Stjarnan í 5. sæti með 18 stig.
 
Tindastóll-Fjölnir
Sex sinnum áður hafa Tindastóll og Fjölnir mæst í deildarkeppni úrvalsdeildar í Skagafirði, Stólarnir hafa unnið fjóra af þessum leikjum en Fjölnir tvo og þar á meðal viðureign liðanna á síðasta tímabili 89-97. Þar sem ÍR lagði Skallagrím í gær er Tindastóll nú eina liðið á botni deildarinnar með 6 stig en Fjölnir í 10. sæti með 8 stig. Sigur Tindastóls í kvöld hleypir enn meira brjálæði í botnbaráttuna en Fjölnissigur færir Grafarvogspilta skrefi nær því sem þeir hafa misst af síðastliðin ár, úrslitakeppninni.
 
Báðir leikir kvöldsins eru í beinni á netinu, Þór-Stjarnan á Sport TV og Tindastóll-Fjölnir á Tindastóll TV. Að sjálfsögðu verður svo Live Stat KKÍ til staðar svo það ætti nákvæmlega ekki neitt að fara framhjá neinum!
 
Munum…jákvæður stuðningur skiptir höfuðmáli!
 
  
Fréttir
- Auglýsing -