Þór Þorlákshöfn vann í gærkvöldi frækinn 105-100 sigur á Stjörnunni í Domino´s deild karla. Með sigrinum eru Þórsarar komnir í 2. sæti deildarinnar með 22 stig en Stjarnan er í 5. sæti með 18 stig. Benjamin Curtis Smith fór hamförum í leiknum með 43 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Jarrid Frye gerði 35 stig í liði Stjörnunnar, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Benjamin Curtis Smith fór mikinn í liði Þórs með 43 stig, 22 þeirra komu af vítalínunni en hann tók alls 24 víti í leiknum! Mögnuð nýting hjá kappanum.
,,Þeir voru mikið að brjóta á honum í restina og hann var tíður gestur á línunni. Leikhlutinn var þar af leiðandi ekki skemmtilegur áhorfs get ég ímyndað mér,” sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórsara við Karfan.is.
,,Það er flott að vinna Stjörnuna enda steinlágum við fyrir þeim í fyrri umferðinni með 17 stigum svo þetta var virkilega kærkomið og við erum auðvitað ánægðir með sigurinn. Stjarnan hefur gríðarlega sterkt lið en í gær gæti verið að bikarúrslitaleikurinn þeirra hafi spilað eitthvað inn í undirmeðvitundina svo ég tel að þeir eigi nú eitthvað inni,” sagið Benedikt,” sem mætir á sinn gamla heimavöll annað kvöld þegar Þórsarar leika gegn KR.
,,Deildin er jöfn og þetta verður ekkert auðveldara. Við fáum lítinn tíma til að jafna okkur eftir leikinn í gær og því er það ánægjulegt að vinna leikinn án Emils og Grétars, Þorsteinn Ragnarsson kom mjög sterkur inn fyrir vikið og við héldum haus. Breiddin okkar er að aukast inn á við,” sagði Benedikt sem vildi ekki kannast við að þefur af úrslitakeppninni væri kominn í loftið.
,,Ég er ekkert farinn að spá í henni, það eru sjö umferðir eftir og manni finnst eins og að fyrir örfáum dögum hafi deildin bara verið hálfnuð.”
En vindum okkur þá að leiknum sjálfum sem var bæði jafn og spennandi.
David Jackson var búinn að hrista af sér meiðslin sem hann varð fyrir í síðasta leik gegn Grindavík og kom hann gríðarlega sterkur og vel stemmdur inn í leikinn. Hann skoraði 13 af fyrstu 17 stigum heimamanna. Jarrid Frye kom líka mjög sterkur inn í leikinn fyrir Stjörnuna og augljóst að þar er góður leikmaður á ferð. Hann var með 12 stig í fyrsta leikhluta sem endaði 21-26 Stjörnunni í vil.
Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta. Mikil barátta var í báðum liðum og menn að gefa allt í þetta. Um miðjan leikhlutann kom Gummi Jóns með þrjá stóra þrista tvo metra fyrir utan línuna og kom heimamönnum fimm stigum yfir. Þá fannst Teit Örlygs komið nóg og tók leikhlé til að endurskipuleggja sitt lið. Það gekk ágætlega því Stjarnan jafnaði 42 – 42. Þá kom Þorsteinn Már og setti niður flottan þrist. Mjög gaman að sjá hann aftur í Þórsbúningnum. Jafnt var í hálfleik 47 -47.
Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik. Mikll hraði var í leiknum og liðin skiptust á að keyra í bakið á hvoru öðru. Jafnt var þegar um 3:23 voru liðnar en þá voru heimamenn orðnir leiðir á þessu. Þeir skelltu í lás í vörninni og keyrðu upp hraðann. Á rúmum fjórum mínútum skoraði Þór 17 stig á móti aðeins 2 stigum Stjörnumanna. Munurinn allt í einu orðin 15 stig. Eftir þennan góða kafla hjá heimamönnum skiptust liðin á að skora til loka leikhlutans. Staðan eftir þrjá leikhluta var 76 – 63 heimamönnum í vil.
Loka leiklutinn var bara skemmtilegur. Þórsarar náðu að halda sínu forskoti fram undir miðjan leikhlutann. Þá fóru gestirnir að sækja á þá og minnkðu muninn jafnt og þétt. Þegar um tvær og hálf voru eftir var gestirnir búnir að minnka muninn í aðeins tvö stig. Þá fór um marga í stúkunni. Loka mínúturnar voru svo svakalegar. Justin kom með tvo stóra þrista til þess að reyna að bjarga þessu en Benjamin smith var með stáltaugar. Hann var svellkaldur á vítalínunni og kláraði leikinn fyrir heimamenn. Gríðarlega mikilvægur sigur hjá þessu flotta Þórsliði. Mikil stemning var í liðinu og allir að vinna fyrir hvern annan. Fín stemning var í húsinu og minnt Græni drekinn á sig og studdu vel við bakið á sínum mönnum.
Atkvæðamestir heimamanna: Benjamin Smith var frábær í leiknum og var með 43/6/7, David Jackson 29/6, Gummi Jóns 12, Flake 8/10 , Þorsteinn 7stig , Baldur 3 , Darri 3 en allt liðið spilaði frábæra vörn.
Atkvæðamestir gestana: Jarrid Frye með 35/7 , Justin 32/6 stoð. Brian Mills 12/8 , Kjartan 10/4 , Fannar 4/4 , Marvin 3/6 , Jovan 2/2 , Oddur 2 stig
Mynd/ Davíð Þór
Umfjöllun/ HH – JBÓ



