spot_img
HomeFréttirEnn að reglu 46.12

Enn að reglu 46.12

Það má með sanni segja að hin glæsilega jöfnunarkarfa Jay Threatt leikmanns Snæfells gegn KFÍ í gærkvöldi hafi vakið mikið umtal. Eru margir á því að karfan hafi verið ólögleg þar sem leiktíminn hafi farið of seint af stað og hefur myndband sem KFÍ lagði á Youtube dreifst hratt um netheima.
 
Karfan.is ætlar ekki að setjast í dómarasæti um hvað er rétt og hvað er rangt en það er þó rétt að reyna að koma staðreyndum á framfæri á miðli sem karfan.is er og höfum við því farið á stúfana til að reyna að ná utan um málið.
 
Það sem virðist gerast í atvikinu er að varnarmaður KFÍ slæmir hönd í sendingu Pálma Freys og Jay Threatt nær boltanum og kastar/skýtur í átt að körfunni og boltinn ofan í. Þegar innkastið er tekið er 1,3 sekúndur eftir af leiktímanum og útfrá myndbandinu virðist tíminn ekki fara af stað fyrr en Threatt fær boltann en hefði átt að fara af stað þegar varnarmaður KFÍ snertir hann. Það skal þó tekið fram að sá er þetta ritar tók ekki eftir snertingu varnarmannsins fyrr en hann hafði horft á þetta mörgum sinnum og það frá sjónarhorni myndavélar sem er nálægt atvikinu og horfir yfir atvikið en tímavörðurinn sem setur klukkuna af stað er sitjandi við borð í sömu hæð og leikurinn og fjölmargir leikmenn á milli og því ekki auðvelt að greina þessa litlu snertingu.
 
Hvað varðar þann tíma sem líður og menn hafa mælt á myndbandstækjum að sé meira en 1,3 sekúndur skal benda á að í öllum körfuboltaleikjum er klukka sett af stað og stoppuð af ritara og þar er alltaf ákveðinn viðbragðstími, þeð er ógjörlegt að setja klukku af stað á sama tíma tíma og menn með myndband sem þeir geta spólað fram og til baka á og geta mælt
frá. Það ber líka að geta þess að þessi viðbragðstími er allan leikinn, alltaf þegar klukkan er sett af stað og stoppuð. T.d. sést í myndbandinu að það líða 0,2 sekúndur frá því skot Pitts á undan fer í gegnum hringinn og þar til klukkan stoppar í 1,3. Þá mát vitna í grein 16.2.5 í leikreglum FIBA en þar segir „Leikklukka verður að gefa til kynna 0:00:3 (3 tíundu úr sekúndu) eða meira til að leikmaður geti náð valdi á knetti við innkast eða frákast eftir síðasta eða eina vítaskot og reynt körfuskot. Ef leikklukka gefur til kynna 0:00:2 eða 0:00:1 er eini
möguleikinn til að gera gilda körfu með því að blaka eða troða knettinum.“ Á þessu má sjá að ef varnarmaðurinn hefði ekki snert boltann hefði Jay Threatt haft mikið meira en nægan tíma til að skjóta á þessari 1,3 sekúndu.
 
Þá er rétt að vitna í aðra reglu þar sem nokkuð hefur verið deilt um afhverju dómarar fóru ekki og horfðu á myndband af atvikinu. Í reglu 46.12 segir „Hefur heimild til að nota tæknibúnað ef hann er til staðar til að ákvarða, áður en hann undirritar leikskýrsluna, hvort lokaskotið í hverjum leikhluta eða framlengingu var tekið innan leiktímans og eða
hvort körfuskot gildir tvö eða þrjú stig.“ Á þessu má sjá að dómarar hafa heimild til að meta hvort búið var að sleppa boltanum í lokaskotinu áður en flautan gall en hafa enga heimild til að skoða hvort klukka fór ekki af stað á réttum tíma.
 
Það má því segja að þetta atvik sé eitt af þeim mistökum sem verða í leikjum og ekki er hægt að taka á, sumum til gleði, öðrum til óánægju.
 
Fréttir
- Auglýsing -