KFÍ TV setti skömmu eftir leik KFÍ og Snæfells í gær myndband sem sýnir hvar Sveinn Arnar Davíðsson leikmaður Snæfells slengir öðrum fætinum í höfuð Damier Pitts sem liggur í gólfinu. Pitts baðaði annarri hendinni út í átt að Sveini sem síðar fór með fótinn í höfuð Pitts.
Nú hefur Karfan.is heimildir fyrir því að dómarar leiksins hafi kært atvikið, þ.e. kært Svein Arnar en ekki var flautað á þetta á meðan leik stóð. Karfan.is endurbirti myndbandið af KFÍ TV í gærkvöldi en nálgast má það hér.
Athyglisverða þróunin er sú að stjórn KFÍ hefur gefið frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir:
,,Stjórn KFÍ mun ekki kæra atvik sem var í leik okkar gegn Snæfell þann 10.febrúar, þar sem leikmaður Snæfells setur fót í höfuð leikmanns KFÍ, þar sem hann lá í gólfinu. Við fordæmum slíkt athæfi, þetta á ekkert skilt við okkar fallegu íþrótt, en ýmislegt kemur fyrir í hita leiksins og treystum við þjálfara Snæfells til þess að tala við leikmanninn um þetta atvik. Við munum ekkert frekar aðhafast í málinu og óskum Snæfellingum góðs gengis í vetur.”
Þar sem kæra er komin fram á hendur Sveini Arnari og ekki var dæmt á atvikið í leiknum liggur beinast við að dómarar leiksins notuðust við myndbandsupptökuna til að kæra atvikið og hún að sjálfsögðu sprottin úr ranni Ísfirðinga þ.e. KFÍ TV. Sé tekið mið af yfirlýsingu stjórnar KFÍ þá er tilvist myndbandsins nokkuð á skjön við yfirlýsinguna.
Hitt er svo annað og það er niðurstaðan í málinu og hver hún verður.
Mynd úr safni/ Sveinn Arnar í leik með Snæfell gegn Tindastól fyrr á tímabilinu.



