Sá fáheyrði atburður átti sér stað í kvöld í viðureign Stjörnunnar og Njarðvíkur í Domino´s deild karla að parketið í Ásgarði brotnaði. Oddur Rúnar Kristjánsson og Marcus Van þvældust þá hvor um annan í teignum með þeim afleiðingum að Oddur skall harkalega í gólfið með annan olnbogann á undan sér. Þetta gerðist beint undir annarri körfunni og gaf parketið eftir þar sem Oddur lenti.
Parketið brotnaði og varð smá töf á leiknum fyrir vikið á meðan tjaslað var í brotið en það verður að teljast ansi fáheyrt að svona nokkuð gerist. Karfan.is hefur það staðfest að leikmaðurinn hafi sloppið bara með skrámu. Nýverið var gert við undirlagið á parketinu í Ásgarði og gæti það tengst málinu en við fullyrðum það ekki. Betur fór en á horfðist og er það fyrir öllu.
Á myndinni má sjá leikmenn, dómara og fleiri undra sig á atvikinu og okkur flaug umsvifalaust þessir ágætu menn í hug þegar við sáum hópinn standa yfir brotna gólfinu.
Mynd/ Daníel Rúnarsson



