spot_img
HomeFréttirBaptist og Magnús sterkir í Keflavíkursigri

Baptist og Magnús sterkir í Keflavíkursigri

Fjölnir fékk sjóðheita Keflvíkinga í heimsókn í kvöld sem höfðu unnið fimm leiki í röð. Fjölnismenn eru að berjast fyrir veru sinni í deildinni og þurftu því verulega á þessum stigum að halda. Fáum dylst sú staðreynd að Fjölnismenn leika þessi dægrin án Árna Ragnarssonar og Jóns Sverrissonar og svo verður búið um málin í Grafarvogi leiktíðina á enda en gulir þurfa að ráða á fjarveru þeirra bót því 1. deildin er farin að toga.
 
Mikill hraði einkenndi leikinn frá upphafi og jafnt var með liðum í fyrri hálfleik og sóknarleikur beggja liða var góður en minna fór fyrir vörninni. Fjölnismönnum gekk vel að halda Craion niðri en Baptist, Maggi og Lewis voru drjúgir fyrir Keflavík. Hjá Fjölni var Chris Smith öflugur og Arnþór Freyr var sjóðandi heitur fyrir utan þriggjastiga línuna. Keflavík leiddi með 10 stigum í hálfleik 40-50.
 
Liðin héldu áfram að skiptast á körfum í seinni hálfleik en í lok 3.leikhluta fór Keflavík að síga fram úr. Fjölnismenn réðu illa við Magnús Þór Gunnarsson og gleymdu honum nokkrum sinnum einum fyrir utan og fékk hann þriggjastiga skot á silfurfati. Hinn ungi og efnilegi háloftafugl Gunni Óla átti skemmtileg tilþrif þegar hann keyrði í gegnum teig Keflavíkur og tróð með látum við mikinn fögnuð áhorfenda. Hrósa má Fjölnismönnum fyrir að gefast aldrei upp í leiknum en Keflvík var skrefi á undan í þetta skiptið. Lokatölur 101-113 Keflavík í vil.
 
Fjölnismenn hafa nú tapað sjö deildarleikjum í röð en Keflvíkingar eru alveg á hinum enda ássins með sex sigurleiki í röð og þar af fjóra útisigra í röð. Nokkuð fyrirsjáanleg niðurstaða í kvöld þar sem heitasta og kaldasta lið landsins voru að mætast.
 
 
 
Umfjöllun/ Karl West  
Fréttir
- Auglýsing -