spot_img
HomeFréttirFramlag úr öllum áttum hjá Stjörnunni

Framlag úr öllum áttum hjá Stjörnunni

Nýkrýndir bikarmeistarar Stjörnunnar fengu veglegt framlag frá leikmannahópi sínum í kvöld þegar bláir Garðbæingar lögðu botnlið ÍR 88-100 í Hertz Hellinum í Breiðholti. Heimamenn áttu fína spretti en Stjarnan vann góðan liðssigur þar sem Jovan Zdravevski var með góða tvennu og sex leikmenn liðsins skoruðu 10 stig eða meira í leiknum. Eric Palm stóð fyrir sínu í liði ÍR með 33 stig og 4 stoðsendingar.
 
ÍR-ingar urðu fyrir skakkaföllum í hálfleik þegar D´Andre Jordan Williams varð að heimsækja sjúkrahúsið. Hann átti lokaskot fyrri hálfleiksins en lenti illa eftir skotið þar sem hann fékk varnarmann Stjörnunnar á sig og kenndi sér eymsla í öðrum fæti fyrir vikið. Williams kom eins og gefur að skilja ekki meira við sögu í þessum leik.
 
Fyrsti leikhluti var fjörugur, menn léku fast og hratt og jafnræði var á með liðunum. Undir lokin skiptust liðin á nokkrum þristum en Stjarnan var feti framar og leiddi 21-24 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Á fyrstu augnablikum annars leikhluta kom glimrandi kafli hjá gestunum, heimamenn duttu aðeins á hælana í vörninni og bikarmeistarar Stjörnunnar refsuðu með þremur þristum í röð frá þeim Mills, Kjartani og Jovan og staðan orðin 25-36 fyrir Stjörnuna. Gestirnir opnuðu annan leikhluta með alls 4-16 dembu og leiddu 42-51 í hálfleik þar sem þeir Fannar Freyr og Jarrid Frye voru báðir komnir með 3 villur. ÍR-ingar misstu eins og áður segir D´Andre Jordan Williams meiddan af velli og kvaddi hann leikinn með 9 stig og 2 stoðsendingar.
 
Stjörnumenn voru heitir í kvöld með alls 58% þriggja stiga nýtingu þegar upp var staðið. Brian Mills opnaði síðari hálfleik fyrir gestina með þrist en heimamenn svöruðu þá með 8-2 spretti og voru líflegir á upphafsmínútunum. Kjartan Atli Kjartansson og Jovan Zdravevski tóku þá við keflinu í liði Stjörnunnar og stýrðu 4-14 áhlaupi gestanna. Staðan 62-78 fyrir Garðbæinga að loknum þriðja leikhluta sem var reyndar jafn. Stjarnan vann leikhlutann 20-24 en voru alltaf hægt og bítandi að hlaða ofan á góðan grunn með sterku framlagi allra þeirra sem fengu að spreyta sig.
 
Jarrid Frye splæsti í tvær myndarlegar troðslur í upphafi fjórða leikhluta en þó var enn veik von hjá ÍR. Hún hélst í nokkrar mínútur í viðbót uns Jovan Zdravevski kom með þrist sem breytti stöðunni í 74-93 þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka og þá var björninn endanlega unninn í Hellinum. Lokatölur 88-100 Stjörnuna í vil.
 
Kjartan Atli Kjartansson og Jovan Zdravevski voru að leika vel í liði Stjörnunnar. Kjartan Atli með 14 stig og 2 stoðsendingar og Jovan myndarlega tvennu eða 17 stig og 15 fráköst. Stigahæstur Garðbæinga var þó Brian Mills með 18 stig og 8 fráköst. Hjá ÍR var Eric James Palm með 33 stig og 4 stoðsendingar og næstur honum kom Sveinbjörn Claessen með 14 stig.
 
Það var ekki að sjá á mætingu áhangenda Stjörnunnar að liðið hefði orðið bikarmeistari um síðastliðna helgi. Tæplega 40 manns voru mættir Stjörnumegin í stúkuna í Hertz Hellinum í kvöld, þeir sem mættu létu vel í sér heyra engu að síður en furðu sætir hversu lygilega lítinn stuðning liðið fær eftir jafn frækna helgi og raun ber vitni.
 
 
Jarrid Frye með myndarlega troðslu
 
 
Viðtöl við Herbert Arnarson þjálfara ÍR, Kjartan Atla Kjartansson leikmann Stjörnunnar og Eric James Palm leikmann ÍR
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -