spot_img
HomeFréttirFimm Njarðvíkingar yfir 10 stig þegar KR lá í valnum

Fimm Njarðvíkingar yfir 10 stig þegar KR lá í valnum

Í kvöld unnu Njarðvíkingan risastóran heimasigur á KR-ingum í Domino´s deild karla og var sigurinn stórt skref í átt að úrslitakeppni fyrir grænklædda.
 
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 4-0 en KR-ingar tóku fljótlega við sér og allan fyrri hálfleikinn var jafnræði milli liðanna. Eftir fyrsta fjórðung stóðu leikar jafnir, 19-19, og hálfleikstölur voru 40-40, svo það gat ei verið jafnara.
 
Gestirnir opnuðu seinni hálfleikinn með tveim körfum í röð, en Njarðvíkingar komust í 52-47 forystu með þrist frá Elvari MáFriðrikssyni þegar um 5 mínútur voru eftir af 3. fjórðung. Stigaskor Njarðvíkinga dreifðist á fimm leikmenn í þriðja leikhlutanum, þar af fjóra Íslendinga, en KR-ingar fengu aðeins sóknarframlag frá þrem leikmönnum, og voru undir með 8 stigum þegar haldið var í fjórða leikhlutann, 66-58.
 
Ágúst Orrason tók til sinna ráða í fjórða leikhlutanum og skoraði 8 stig í röð fyrir Njarðvík, og því varð munurinn 17 stig þegar um 7 mínútur voru eftir, 77-62. Heimamenn voru einfaldlega með yfirburði í fjórða leikhlutanum og höfðu svör við öllum áhlaupum Vesturbæinga. Njarðvíkingar gerðu síðan út um leikinn þegar þeir stálu boltanum af KR í mikilli báráttu um boltann og Nigel Moore skoraði úr stökkskoti eftir langa sókn. Lokatölur 88-77 og heimamenn fögnuðu vel og innilega að leikslokum, enda vel að sigrinum komnir.
 
Njarðvíkingar hafa nú unnið 4 af síðustu 5 leikjum sínum og vantar einn sigurleik upp á til þess að vera með 50% sigurhlutfall en þeir eru nú með 8 sigra og 9 töp í 7. sæti deildarinnar. KR-ingar eru í því 6. með 9 sigra og 8 töp. Þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi unnið flottan sigur í kvöld eru KR-ingar með innbyrgðis sigur á Njarðvíkinga, sem gæti reynst þeim vel ef liðin enda jöfn að árangri að tímabilinu loknu.
 
Fimm leikmenn Njarðvíkur skoruðu yfir 10 stig, en stigahæstur var Nigel Moore með 22. Brandon Richardson skoraði einnig 22 stig fyrir gestina og Martin Hermanns var með 16.
 
Njarðvík-KR 88-77 (19-19, 21-21, 26-18, 22-19)
 
Njarðvík: Nigel Moore 22/8 fráköst, Ágúst Orrason 18, Elvar Már Friðriksson 17/6 fráköst/7 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 12, Ólafur Helgi Jónsson 12/7 fráköst, Marcus Van 5/9 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 2, Friðrik E. Stefánsson 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Kristján Rúnar Sigurðsson 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0.
 
KR: Brandon Richardson 22/6 fráköst, Martin Hermannsson 16, Darshawn McClellan 9/5 fráköst, Finnur Atli Magnusson 7, Helgi Már Magnússon 7/4 fráköst, Kristófer Acox 6/5 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 5, Brynjar Þór Björnsson 5, Jón Orri Kristjánsson 0, Darri Freyr Atlason 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Gunnar Þór Andrésson
 
 
Mynd/ Helgi Helgason
Umfjöllun/ Adam Eiður Ásgeirsson
  
Fréttir
- Auglýsing -