Njarðvíkingar skelltu KFÍ 93-119 á Jakanum í kvöld þegar liðin mættust í Domino´s deild karla. Þetta var þriðji deildarsigur Njarðvíkinga í röð og jafnframt fimmti útisigur liðsins í röð. Einar Árni Jóhannsson stóð í ströngu með þrjú Njarðvíkurlið á Ísafirði í dag. Fyrst stýrði hann 11. flokki til sigurs gegn KFÍ, síðan meistaraflokknum og þar strax á eftir unglingaflokki félagsins. Sannkölluð ferð til fjár fyrir Njarðvíkinga.
,,Menn eru bara kátir, við unnum alla þrjá leikina og þetta var flottur liðssigur í meistaraflokki. Við fáum þar flott sóknarframlag frá mjög mörgum og sex menn með 10 stig eða meira í leiknum. Við vorum pínu fúlir með að fá á okkur 93 stig enda hefur vörnin verið góð undanfarið en við verðum að gefa Pitts það að hann hitti svakalega, hann getur skorað, það vantar ekki,” sagði Einar Árni og vænkast nú hagur Njarðvíkinga í deildinni.
,,Við höfum unnið 5 af síðustu 6 leikjum í deildinni og okkur líður vel með það sem við erum að gera. Við erum að spila vel og erum djúpir, framlagið kemur frá mörgum og baráttan um mínútur gerir okkur betri,” sagði Einar sem tekur á móti Fjölni í Ljónagryfjunni í næstu umferð.
,,Sá leikur verður eins og þessi KFÍ leikur, við erum að mæta liði sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Við þurftum að vinna Stjörnuna og KR til að þjarma að þeim í deildinni og það telur ekki nema að fylgja því eftir með sigrum í framhaldinu. Nú er bara um að gera að mæta gíraðir í fimmtudaginn.”



