spot_img
HomeFréttirKR og ÍR - Rúmlega 50 ára gömul saga heldur áfram

KR og ÍR – Rúmlega 50 ára gömul saga heldur áfram

Þrír leikir eru á dagskránni í Domino´s deild karla í kvöld en það er gaman að segja frá því að Reykjavíkurglíma KR og ÍR nálgast sextugsaldurinn en þess tvö stóru félög hafa marga hildina háð í gegnum tíðina. Karfan.is rýndi aðeins í rimmur liðanna með mið af heimavöllum kvöldsins.
 
Tindastóll-Snæfell
Fyrsti leikur Tindastóls og Snæfells í Skagafirði í úrvalsdeild karla var árið 1990 en þá höfðu Stólarnir 93-85 sigur í leiknum. Fyrsti sigur Snæfells í Síkinu kom árið 1993 þegar þeir lögðu gestgjafana 86-87. Snæfell hefur hinsvegar unnið tvær síðustu deildarviðureignir í Síkinu í fyrra og árið þar áður, á síðasta tímabili 99-100 og árið þar áður 92-94. Síðustu fjórar deildarviðureignir liðanna í Skagafirði hafa unnist með minna en tíu stiga mun svo það er rík saga fyrir spennuslag síðustu misseri þegar þessi lið mætast fyrir norðan.
 
KR-ÍR
Elsta rimma erkifjenda í íslenskum körfuknattleik, á því leikur enginn vafi en fyrsta viðureign liðanna í úrvalsdeild á heimavelli KR fór fram árið 1963 í Hálogalandi þar sem ÍR fór með 53-81 stórsigur af hólmi. Reykjavíkurrimma liðanna er komin vel yfir fimmtugsaldurinn en liðin mættust fyrst árið 1956 á heimavelli ÍR. Við þurfum þó að leita aftur til ársins 1996 til að sjá hvenær ÍR vann síðast deildarleik í úrvalsdeild á heimavelli KR. Sá slagur fór 88-91 fyrir ÍR en eftir það hefur ÍR aðeins unnið KR í úrslitakeppni, þ.e. á heimavelli KR.
 
Skallagrímur-Keflavík
Skallagrímur og Keflavík mættust fyrst í úrvalsdeildarleik í Borgarnesi árið 1992 þar sem Keflvíkingar fóru með nauman 82-87 sigur af hólmi. Keflvíkingar hafa unnið tvær síðustu viðureignir liðanna í Borgarnesi, þ.e. í deild, en þær fóru fram í mars og desember árið 2008. Síðasti heimasigur Skallagríms í deild kom árið 2007 og þá lögðu þeir Keflvíkinga 100-98.
  
Mynd/ [email protected] – Herbert og ÍR-ingar mæta í DHL Höllina í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -