Grindavík hefur tekið 1-0 forystu í undanúrslitaeinvígi sínu gegn KR í Domino´s deild karla. Sterk byrjun heimamanna í Röstinni lagði grunninn að sigri þó KR-ingar hefðu náð á lokasprettinum að minnka muninn í eitt stig. Vaskleg framganga Jóhann Árna Ólafssonar og Aaron Broussard tryggði Grindvíkingum sigurinn í kvöld, lokatölur 95-87. Næsta viðureign liðanna fer fram í DHL Höllinni þann 4. apríl næstkomandi.
Kristófer Acox vann uppkastið fyrir KR-inga en Aaron Broussard komst inn í málin og skoraði auðvelda fyrstu körfu leiksins. Hann splæsti svo í þrist og heimamenn komust í 5-0 á meðan KR brenndi af fjórum fyrstu teigskotunum sínum í leiknum. Kristófer Acox kom KR loks á blað og gerði fjögur stigi fyrir gestina með skömmu millibili og minnkaði muninn í 5-4.
Heimamenn í Grindavík náðu svo fínni rispu þegar líða tók á fyrsta leikhluta og breyttu stöðunni í 17-10 eftir þriggja stiga körfu frá Jóhanni Árna og röndóttir tóku leikhlé. Gulir voru þó beittari út úr leikhléinu og í tvígang gerðu þeir sér mat úr því þegar Martin Hermannsson nýkominn inn á missti boltann og heimamenn skoruðu fjögur auðveld stig og áhlaupið hjá gulum orðið 11-0 og staðan 21-10. Heimamenn bættu við tveimur stigum til viðbótar við áhlaup sitt áður en fyrsti hluti var allur og staðan því 23-10 að honum loknum og 13-0 demba í gangi hjá Grindavík.
Ryan Pettinella bætti við fimmtánda áhlaupsstiginu hjá Grindavík og breytti stöðunni í 25-10 í upphafi annars leikhluta en lengra varð áhlaup heimamanna ekki því Darshawn McClellan skoraði strax í næstu sókn fyrir KR. Gestirnir gerðu fimm stig í röð áður en Jóhann Árni reif í sig sóknarfrákast, skoraði og fékk villu að auki og staðan orðin 28-15 og ljóst að gestirnir máttu hysja allverulega upp um sig ef ekki átti illa að fara.
KR-ingar létu mótlætið fara í skapið á sér, fengu lítið í sínum sóknum og eftir eina slíka þar sem þeir töldu sig eiga rétt á villu en fengu ekki datt í hús tæknivíti fyrir óhófleg mótmæli og staðan 34-19 fyrir Grindavík og allt að falla gulum í vil sem létu gestina finna vel fyrir sér.
Annar leikhluti var vissulega jafnari en sá fyrsti og þó hann hafi verið jafnari var forysta Grindavíkur orðin nokkuð þægileg. Brynjar Þór náði að skella niður KR þrist og minnka muninn í 38-24 en því var strax svarað í sömu mynt. Ryan Pettinella setti svo nýtt Íslandsmet í sprettum miðherja þegar hann komst inn í sendingu KR og brunaði upp völlinn sem bakvörður væri og skoraði í… annarri tilraun, en snöggur var hann þó.
KR-ingar reyndu hvað þeir gátu að þétta vörnina en hleyptu á sig fleiri stigum í öðrum leikhluta heldur en þeim fyrsta, gulir unnu leikhlutann 27-24 og leiddu því 50-34 í hálfleik. Jóhann Árni Ólafsson var sterkur í liði Grindavíkur með 16 stig og 3 fráköst í hálfleik en Brynjar Þór Björnsson var með 11 í liði KR. Grindvíkingar áttu frákastabaráttuna í fyrri hálfleik, 27-14 og þar af 9 sóknarfráköst.
KR-ingar opnðu síðari hálfleikinn með látum, gerðu sjö stig í röð og minnkuðu muninn í 50-41 og vonin um að fá alvöru leik undir lok páskahátíðarinnar vaknaði. Grindvíkingar sváfu þó ekki of lengi á verðinum og voru fljótir að koma muninum aftur yfir 10 stiga múrinn. Jóhann Árni sem var sterkur í fyrri hálfleik hafði hvergi nærri sagt sitt síðasta og kom Grindavík í 61-49 og skömmu síðar var Þorleifur á ferðinni með þrist og munurinn kominn í 17 stig eða 66-49. Röndóttir voru þó ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn í 66-57 með 8-0 spretti.
Brandon Richardson var iðinn við kolann í þriðja leikhluta og var mikil vinnsla á kappanum í liði KR sem náði að minnka muninn í 74-67 og unnu þriðja leikhluta 24-33! Það hitnaði smá í kolunum í þriðja þar sem þeir Jóhann Árni og Helgi þjálfari KR áttu smá orðastað og nokkuð um pústra allan leikhlutann. KR þreifst betur í umhverfi hörkunnar þessar tíu mínútur og opnuðu leikinn upp á nýtt með sterkri frammistöðu.
Menn létu ekkert rigna í upphafi fjórða leikhluta, samtals fjögur stig á næstum þremur mínútum og ljóst að leikhlutinn yrði nokkuð læstur í barningi. KR nálgaðist þó óðfluga, Pettinella fékk sína fjórðu villu og ljóst að innistæðan hans á trompreikningi dómaranna er lítil sem engin og gjarnan flautað nokkuð mikið á kappann. Brandon Richardson minnkaði muninn í 77-74 og ef það var ekki nóg til að anda ofan í hálsmál heimamanna þá mætti Brynjar Þór Björnsson með KR þrist og staðan orðin 80-79.
Eftir að hafa nagað niður forystu Grindavíkur fylgdu KR-ingar málum ekki nægilega vel eftir. Jóhann Árni Ólafsson hélt áfram að gera þeim lífið leitt og setti fjögur í röð sem jók muninn í 87-79. Þar á undan hafði Brynjar Þór runnið til í KR sókn þegar 1.16mín voru til leiksloka og gulir því með pálmann í höndunum. Grindvíkingar lokuðu að endingu leiknum en fengu í kvöld áminningu um að verja ekki forskot heldur halda áfram að sækja. Röndóttir fá prik fyrir að berja sig aftur inn í leikinn en þurfa að herða varnarleik sinn því fyrstu þrjá leikhlutana fengu þeir 20 stig eða meira á sig hverjar tíu mínútur. Lokatölur í Röstinni í kvöld 95-87 Grindavík í vil.
Byrjunarliðin:
Grindavík: Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
KR: Brandon Richardson, Brynjar Þór Björnsson, Darshawn McClellan, Kristófer Acox og Helgi Magnússon.
Dómarar leiksins: Jón Guðmundsson, Sigmundur Már Herbertsson og Jón Bender
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]



