spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: KR fær Grindavík í heimsókn

Leikir dagsins: KR fær Grindavík í heimsókn

Þrír stórleikir fara fram í boltanum hér heima í kvöld. KR og Grindavík mætast í sínum öðrum leik í undanúrslitum Domino´s deildar karla. Úrslitaeinvígi Hamars og Stjörnunnar í 1. deild kvenna hefst einnig í kvöld og þá mætast Þór Akureyri og Valur í sínum öðrum undanúrslitaleik í 1. deild karla.
 
KR-Grindavík, 19:15 í DHL Höllinni
Grindvíkingar unnu fyrsta leikinn og leiða því 1-0 fyrir leik kvöldsins. Allt leit út fyrir stórsigur hjá gulum í fyrsta leik en KR barði sig inn í leikinn að nýju en sterkur lokasprettur Grindvíkinga færði þeim fyrsta sigurinn í einvíginu. Röndóttir verða vitaskuld með hamborgarana frægu klára löngu fyrir leik svo það ætti enginn að sjá þennan stórslag nema með mettan maga. KR verður með forsölu á miðum á leikinn í kvöld í DHL höllinni á milli kl. 12 og 13 í dag.
 
Hamar-Stjarnan, 19:15 í Hveragerði
Úrslitaserían hefst í Hveragerði í kvöld en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki öðlast sæti í Domino´s deild kvenna á næstu leiktíð. Hamarskonur eru ríkjandi deildarmeistarar og hafa því heimaleikjaréttinn í seríunni.
 
Þór Akureyri-Valur, 20:00 á Akureyri
Valsmenn leiða einvígið 1-0 eftir nauman sigur í spennuslag að Hlíðarenda. Þórsarar sögðu farir sínar ekki sléttar í þeim leik og nokkuð ljóst að hart verður barist í Síðuskóla í kvöld. Sigur hjá Val kemur þeim í úrslitaeinvígið um laust sæti í Domino´s deild karla á næstu leiktíð en sigur hjá Þór tryggir liðinu oddaleik í Vodafonehöllinni.
  
Fréttir
- Auglýsing -