Gærdagurinn var bara alls ekki svo slæmur ef þú heitir Ryan Pettinella. Dagurinn hófst á því að kappinn mætti ,,helköttaður” í Fréttablaðið í viðtali sem nálgast má hér. Því næst lá leiðin í höfuðborgina þar sem Ryan og félagar í Grindavík höfðu sigur í DHL Höllinni og komust þannig í úrslit Domino´s deildar karla.
Nú til að smyrja enn meira kæti ofan á gærdaginn hjá Pettinella þá fór þessi 39,5% vítaskytta einu sinni á línuna í leiknum, tók tvö skot og jarðaði þau bæði við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna Grindavíkur í stúkunni. Ekki ósennilegt að 11. apríl verði hér eftir kallaður Pettinella-dagurinn.
Hvort framhald verði á myndarlegri frammistöðu kappans á vítalínunni skal ósagt látið en þetta var í annað sinn á Íslandsmótinu í vetur sem hann nær 100% vítanýtingu, í fyrra skiptið var það í lokaleik liðsins gegn Tindastól en þá tók hann eitt víti og það söng í netinu.



