spot_img
HomeFréttirÚrslitin hefjast í kvöld - Grillað í Grindavík

Úrslitin hefjast í kvöld – Grillað í Grindavík

Úrslitaviðureignin í Domino´s deild karla hefst í kvöld! Deildarmeistarar Grindavíkur og bikarmeistarar Stjörnunnar mætast í Röstinni kl. 19:15 í sínum fyrsta leik. Vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari en Grindvíkingar eru ríkjandi meistarar og takist þeim að vinna titilinn verður það í fyrsta sinn síðan árið 2005 sem lið verður meistari tvö ár í röð en Keflavík gerði það síðast þegar þeir urðu reyndar meistarar 2003, 2004 og 2005.
 
Grindvíkingar hafa tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistarar, fyrst árið 1996 og aftur á síðustu leiktíð. Stjörnumenn eru á höttunum eftir sínum fyrsta titli en hafa einu sinni leikið til úrslita, tímabilið 2011, og töpuðu þá 3-1 gegn KR.
 
Leið liðanna í úrslit:
 
Grindavík:
Grindavík 2-0 Skallagrímur
Grindavík 3-1 KR
 
Stjarnan:
Stjarnan 2-1 Keflavík
Snæfell 1-3 Stjarnan
 
Við þykjumst nokkuð vissir í okkar sök þegar við teflum því fram að byrjunarliðin í úrslitum verði jafnan svona útlítandi:
 
Grindavík:
Samuel Zeglinski
Þorleifur Ólafsson
Jóhann Árni Ólafsson
Aaron Broussard
Sigurður Gunnar Þorsteinsson
 
Stjarnan:
Justin Shouse
Marvin Valdimarsson
Jarrid Frye
Brian Mills
Fannar Freyr Helgason
 
Ef við berum svo saman bekkina hjá liðunum í úrslitakeppninni þá hefur bekkur Stjörnunnar skorað 127 stig í úrslitakeppninni í sjö leikjum liðsins eða 18,14 stig að meðaltali í leik. Hjá Grindavík hefur bekkurinn skorað samtals 78 stig í sex leikjum í úrslitakeppninni eða 13 stig að meðaltali í leik svo það er ljóst að Garðbæingar hafa verið að ná meira út úr sínum bekk en þar hefur Jovan Zdravevski verið að koma sterkur inn í lið Stjörnunnar.
 
Fólk ætti að mæta tímanlega í Röstina í kvöld en um kl. 17:30 verða grillin tendruð í aðstöðunni hjá Láka við Salthúsið en það er KKD Grindavíkur sem sér um söluna á ljúffengum hamborgurum sem fólk getur gætt sér á fyrir stóra slaginn og þá verða fleiri tilboð í gangi fyrir leikgesti. Leikurinn verður svo í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport, beinni tölfræðilýsingu á kkí.is og að sjálfsögðu mun Karfan.is fylgjast grannt með gangi mála í bæði máli og myndum.
 
Mætum tímanlega á völlinn!
Grindavík-Stjarnan
Úrslit Domino´s deildar karla
Leikur 1 kl. 19:15 í Röstinni í kvöld
 
  
Fréttir
- Auglýsing -