Tveir leikir fóru fram í kvöld í undanúrslitum stúlknaflokks en þessa helgina fer fram fyrri úrslitahelgin af tveimur og leikið er í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Grænar heimakonur komust áfram með sigri á Val og Keflavík skellti KFÍ/Tindastól.
Njarðvíkingar lögðu Valskonur eftir framlengda spennuviðureign 101-99 þar sem Guðlaug Björt Júlíusdóttir setti saman magnaða þrennu í Njarðvíkurliðinu með 28 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar! Hjá Valskonum var Hallveig Jónsdóttir í mögnuðum ham með 43 stig, 9 fráköst, 8 stoðsendingar og 8 stolna bolta og ekki fjarri því að landa fernu!
Keflavík hafði öruggan 78-41 sigur á KFÍ/Tindastól þar sem Elínora Guðlaug Einarsdóttir var stigahæst með 20 stig og 8 fráköst en hjá KFÍ/Tindastól var Eva Margrét Kristjánsdóttir með 26 stig og 16 fráköst.
Það verða því grannarnir Njarðvík og Keflavík sem leika til úrslita í stúlknaflokki í Ljónagryfjunni á sunnudag.
Mynd úr safni/ Guðlaug Björt Júlíusdóttir fór fyrir Njarðvíkingum í spennusigri liðsins í kvöld.



