Áðan birtist rándýr stöðuuppfærsla á Facebook-síðu Justin Shouse. Eins og flestir vita stendur hann í ströngu þessi dægrin í úrslitum Domino´s deildarinnar með Stjörnunni. Í fljótu máli sagt kom fram í stöðuuppfærslunni hjá Shouse að hann myndi missa af leik fjögur gegn Grindavík á fimmtudag því honum hefði boðist þjálfarastaða í Bandaríkjunum!
Ennfremur stóð í stöðuuppfærslunni að hann myndi þó koma aftur til Íslands og spila leik fimm ef til hans kæmi en þyrfti að halda út og hitta fólk vegna nýju stöðunnar sem honum bauðst. Justin, samkvæmt stöðuuppfærslunni, var því að fara að missa af leik fjögur á fimmtudag.
Hið rétta í þessu öllu saman er að Shouse brá sér frá tölvunni og skildi Facebook eftir opið í skólanum þar sem hann er kennari. Það voru vitaskuld rándýr mistök því óprúttinn samkennari komst í tölvuna og setti inn þessa stöðuuppfærslu. Shouse er nú búinn að leiðrétta þetta allt saman með nýrri stöðuuppfærslu og taka út þá gömlu:
„YOU WOULD THINK THAT YOU COULD LEAVE UR FACEBOOK OPEN IN A SCHOOL, THE TEACHERS OF ICELAND CANNOT BE TRUSTED! I WILL BE IN ICELAND FOR THE NEXT MONTH…..Sheeeeeeeeesh i got 20 messages and 7 phone calls, what a disaster…I will be in Asgardur for game 4 and 5 obviously…..“



