spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar í 10. flokki kvenna

Haukar Íslandsmeistarar í 10. flokki kvenna

Haukar eru Íslandsmeistarar í 10. flokki kvenna eftir 34-38 sigur á Keflavík í DHL Höllinni. Sylvía Rún Hálfdánardóttir var útnefnd besti leikmaður úrslitaleiksins með 21 stig, 13 fráköst, 4 stolna bolta og 2 varin skot. Keflvíkingar léku lungann úr leiknum þjálfaralausir þar sem Jóni Guðmundssyni var vísað úr húsi í öðrum leikhluta leiksins. Vissulega fengu Keflvíkingar ráðleggingar úr stúkunni en voru einar á bekknum og komst þessi ungi hópur afar vel frá verkefninu þrátt fyrir að þurfa að sætta sig við silfrið.
 
Þó nokkur skjálfti var í báðum liðum á upphafsmínútum leiksins. Fyrstu stig litu ekki dagsins ljós fyrr en eftir þriggja mínútna leik þegar Kristrún Björgvinsdóttir setti niður þrist fyrir Keflvíkinga. Haukar tóku svo leikhlé og ekki oft sem maður sér leikhlé og stöðutaflan sýnir 3-0 en stundum þarf fólk einfaldlega að ræða málin og ná af sér gæsahúðinni og þannig var tilfellið með Hauka.
 
Eftir snemmbúna leikhléið komu Haukar grimmir til leiks og skoruðu sex stig í röð og komust í 4-6. Kristrún var þó að finna sig í röðum Keflavíkur og kom þeim í 9-8 með öðrum þrist þegar 20 sekúndur lifðu af fyrsta leikhluta og Keflvíkingar leiddu því 9-8.
 
Skotnýting beggja liða var miður góð en Sylvía Rún Hálfdánardóttir hafði það af snemma í öðrum leikhluta að koma Haukum í 11-12 eftir fjögurra mínútna leik í leikhlutanum. Varnir liðanna voru fínar en trúin á skotin var ekki mikil. Tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur fær dæmt á sig tæknivíti eftir mótmæli við dómara leiksins. Haukar breyttu stöðunni í 13-16 og við tók fáséður hlutur.
 
Skömmu eftir tæknivilluna var þjálfara Keflavíkur hent út úr húsi fyrir áframhaldandi mótmæli. Keflvíkingar voru ekki með skráðan aðstoðarþjálfara á skýrslu og voru því þjálfaralausar. Aðvífandi komu Falur Harðarson og Björg Hafsteinsdóttir reiðubúin til þess að stýra liðinu en fengu ekki. Þeim var vísað upp í áhorfendastúku á nýjan leik og Keflvíkingar nauðbeygðir til þess eins að stýra liðinu sjálfir, þ.e. leikmenn.
 
Haukar nýttu sér upplausnarástandið illa og leiddu aðeins 15-21 í hálfleik. Sylvía Rún Hálfdánardóttir var með 11 stig og 8 fráköst hjá Haukum í hálfleik en hjá Keflavík var Kristrún Björgvinsdóttir með 8 stig.
 
Sylvía Rún Hálfdánardóttir reyndist Keflvíkingum erfið í síðari hálfleik rétt eins og þeim fyrri. Sylvía kom Haukum í 18-26 með körfu og fékk villu að auki þar sem vítið rataði rétta leið. Keflvíkingar létu þó ekkert stinga sig af. Þjálfaralausar tókst þeim mjög vel að halda á spilunum í þriðja leikhluta sem var hnífjafn og fór 10-10 og Haukar leiddu því 25-31 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Keflvíkingar voru komnir í smá villuvesen þar sem þeirra stigahæsti leikmaður, Kristrún Björgvinsdóttir fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta.
 
Keflvíkingar unnu fjórða leikhluta 9-7 en það dugði ekki til í dag. Þær komust næst Haukum í 33-35 þegar Svanhvít Ósk skoraði, fékk villu að auki og setti niður vítið fyrir Keflavík. Lokasprettur leiksins var nokkuð mistækur hjá Keflvíkingum þar sem þær voru að missa svolítið frá sér boltann og að basla varnarlega gegn Sylvíu Rún sem lék vörn þeirra oft grátt.
 
Haukar sluppu með sigur 34-38 og fögnuðu vel og innilega Íslandsmeistaratitlinum en Keflavíkurstúlkur fá hrós fyrir það að standa í fæturna þjálfaralausar og komast vel frá því verkefni.
 
 
Mynd og umfjöllun/ [email protected]
 
  
Fréttir
- Auglýsing -