Stjórn kkd KR og Finnur Freyr Stefánsson hafa í meginatriðum komist að samkomulagi um að Finnur verði þjálfari meistaraflokks karla næstu fimm árin. Finnur heldur utan til Svíþjóðar í tvær vikur í fyrramálið með u-16 ára landsliðs Íslands og er stefnt að undirskrift þegar hann kemur til baka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KKD KR.
Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla mun Finnur vera yfirþjálfari yngri flokka. Eins og fyrr sagði er samningurinn til fimm ára og er lengd samningsins til marks um trú félagsins á Finni. Er honum ætlað að byggja upp öflugt þjálfarateymi sem vinnur eftir námskrá félagsins í kennslu og þjálfun. Deildin mun vinna eftir skýrri stefnu sinni sem byggir á að KR verði sem fyrr leiðandi í íslenskum körfuknattleik.
Þessa dagana er verið að leita að öflugum eftirmanni fyrir Finn til að taka við meistaraflokki kvenna. Einnig mun skýrast á næstu dögum og vikum hvernig leikmannahópar beggja meistaraflokka verða skipaðir en stefnt er að því halda að mestu óbreyttu liði, með fáeinum mögulegum viðbótum.
Finnur Freyr Stefánsson er 29 ára gamall Vesturbæingur, æfði körfuknattleik með yngri flokkum KR en hann er að hefja sitt fjórtanda ár sem þjálfari hjá félaginu.



