Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Íslands og Svíþjóðar í flokki U16 ára kvenna.
Viðtal við Ingibjörgu Sigurðardóttur eftir leik
– 16 ára stelpurnar hafa því unnið tvo leiki á Norðurlandamótinu og tapað tveimur, fyrst sigrar gegn Eistum og Norðmönnum og svo tveir tapleikir gegn Finnum og svo Svíum. Á morgun, rétt eins og hin íslensku liðin leika þær gegn Dönum.
– Eva Kristjánsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 26 stig og 6 fráköst. Kristrún Björgvinsdóttir bætti svo við 6 stigum og 6 fráköstum.
– 4. leikhluti
– Leik lokið…lokatölur 43-76 Svíþjóð í vil. Íslenska liðið hleypti aðeins tíu stigum á sig í fjórða leikhluta og því batnaði varnarleikurinn með hverjum leiknum en Svíar gerðu okkur skráveifu snemma og leika á morgun hreinan úrslitaleik gegn Finnum um Norðurlandameistaratitilinn í kvennaflokki.
– 40-70 og 4.14mín til leiksloka. Lítið skorað í þessum fjórða leikhluta enda ljóst fyrir allnokkru að sænskur sigur er í höfn.
– 38-70 og fjórar mínútur liðnar af lokaleikhlutanum og íslenska liðinu gengur illa að skora…nokkurnveginn saga leiksins. Svíar eru einfaldlega mun sterkari en íslensku stelpurnar eru að berjast og hengja ekki haus sem er mjög jákvætt.
– Fjórði leikhluti er hafinn og það tók heimakonur ekki langan tíma að gera fyrstu stigin, staðan 38-68, 30 stiga munur en það þykir nokkuð ljóst að Svíar og Finnar séu með sterkustu liðin í U16 ára flokki kvenna þetta Norðurlandamótið.

(Þóra Kristín Jónsdóttir)
3. leikhluti
– Þriðja leikhluta er lokið og staðan er 38-66 fyrir Svíþjóð. Leikhlutinn var jafn, 16-16 og íslenska vörnin hefur ekkert gert nema batnað, fyrst 30 stig, svo 20 stig og nú héldu þær Svíum í 16 stigum í þriðja leikhluta. Eva Kristjánsdóttir fer fyrir liðinu með 23 stig en stelpurnar geta enn lagað stöðuna með því að vera ákveðnari í sínum sóknaraðgerðum.
– 30-62 og þrjár mínútur eftir af þriðja leikhluta. Eva Kristjánsdóttir fékk smá hvíld og þá datt broddurinn úr sóknarleik íslenska liðsins en hún er mætt aftur á völlinn og skorar eftir sóknarfrákast, 32-62.
– 30-60 og Ingibjörg Sigurðardóttir skorar sín fyrstu stig í leiknum eftir flott samspil í teignum með Rósu Björk Pétursdóttur. 5.23mín eftir af þriðja leikhluta og Svíar taka leikhlé.
– 28-57 og þrjár mínútur liðnar af síðari hálfleik. Íslenska liðið er enn í svæðisvörn en Svíar létu níu þristum rigna yfir þá vörn í fyrri hálfleik.
– Þá er síðari hálfleikur farinn af stað, Svíar byrjuðu með boltann en íslenska vörnin þvingað út tapaðan bolta og Eva Kristjánsdóttir gerði þar á eftir fyrstu stig síðari hálfleiks með gegnum broti og 24-50.
– Síðari hálfleikur hefst eftir örfáar mínútur…

(Tómas Holton þjálfari U16 ára liðs kvenna)

– Skotnýting Íslands í hálfleik
Tveggja 37,5% – þriggja 12,% og víti 63,3%
– Eva Kristjánsdóttir hefur borið af í íslenska liðinu í fyrri hálfleik með 15 stig og 3 fráköst.
– 2. leikhluti
– Hálfleikur…staðan er 22-50 fyrir Svíþjóð og íslenska liðið tók vel við sér í öðrum leikhluta, Svíar unnu hann reyndar 17-20 en stelpurnar sóttu bæði grimmar á sænsku körfuna og þéttu varnarleikinn sinn. Enn er ráðrúm fyrir þær að bæta sig í síðari hálfleik og freista þess að brúa bilið millum liðanna.
– 20-44 Kristrún Björgvinsdóttir með fyrsta íslenska þristinn í leiknum og annar leikhluti hefur verið mjög jafn, jafnari en staðan gefur til kynna enda léku Svíar á als oddi í fyrsta leikhluta. Meiri grimmd í íslenska liðinu og þeim gengur betur að koma boltanum upp völlinn en það var nánast ógerningur í fyrsta leikhluta.
– 17-42 og 3.00mín eftir af fyrri hálfleik.
– 12-37 Karen Dögg með körfu í sænska teignum og fyrst í íslenska liðinu til að komast á blað fyrir utan Evu Kristjánsdóttur.
– 10-33 Svíar með þrist og eru búnir að setja sjö slíka á 14 mínútum, magnaðar skyttur þessar sænsku en vörn okkar stúlkna flott framan af öðrum leikhluta og Svíar skoruðu ekki fyrr en eftir þrjár og hálfa mínútu. Tapaðir boltar eru þó orðnir 13 talsins en þetta var einnig vesen gegn Finnum í gær sem leika álíka grimma maður á mann vörn og Svíar gera.
– 10-30 og Ísland byrjar annan leikhluta 3-0 og halda Svíum stigalausum fyrstu tvær mínúturnar svo þær eru að herða tökin í vörninni.
– 7-30 Eva Kristjánsdóttir opnar annan leikhluta með körfu í teignum fyrir íslenska liðið og hún ein íslenskra stúlkna búin að skora í leiknum.
– Annar leikhluti er hafinn…Íslendingar byrja með boltann.
– 1. leikhluti
– 5-30 og fyrsta leikhluta er lokið. Eva Kristjánsdóttir búin að gera öll fimm stig liðsins í leiknum. Svíar eru umtalsvert sterkari en íslensku stelpurnar verða að sýna klærnar í vörninni enda ekki boðlegt að fá á sig 30 stig á 10 mínútum og við höfum fulla trú á því að stelpurnar láti það ekki koma fyrir aftur næstu þrjá leikhlutana.
– 2-23 og 1.14mín eftir af fyrsta leikhluta. Svíar hreyfa boltann vel en íslenska liðið þarf að herða róðurinn í vörninni og láta finna betur fyrir sér, of mikil linkind í stelpunum.
– 2-17 og 3.30mín eftir af fyrsta leikhluta og það er Eva Kristjánsdóttir sem er komin aftur á völlinn eftir smá högg í upphafi leiks sem gerir fyrstu stig Íslands eftir tæplega sjö mínútna leik. Eva fékk góða sendingu inn í teiginn og kláraði vel.
– 0-13 Svíar með þrist og 4.47mín eftir af fyrsta leikhluta og Tómas Holton biður um leikhlé fyrir Ísland enda þarf bæði að stappa stálinu í hópinn og skerpa á einbeitingunni.
– 0-10 og 5.16mín eftir af fyrsta leikhluta, vörn Svía er þétt en íslensku stelpurnar eru að fara illa með boltann og hafa tapað honum sex sinnum fyrstu fimm mínúturnar.
– 0-7 og fjórar mínútur liðnar af leiknum, íslenska liðinu gengur illa að prjóna sig framhjá sænsku vörninni.
– Íslenski þjóðsöngurinn rétt fyrir leik:
– 0-3 Svíar byrja með þrist og skömmu síðar fær Eva Kristjánsdóttir högg á hálsin og heldur á bekkinn til aðhlynningar hjá Erlu Ólafsdóttur sjúkraþjálfara liðsins. Inn í stað Evu kom Hanna Þráinsdóttir.
– Tvær mínútur liðnar og enn ekki komin karfa, þreifingar í gangi en Ísland byrjar með Ingibjörgu Sigurðardóttur, Kristrúnu Björgvinsdóttur, Þóru Kristínu Jónsdóttur, Karen Dögg Vilhjálmsdóttur og Evu Kristjánsdóttur.
– Leikurinn er hafinn og það voru Svíar sem unnu uppkastið.
_____________________________________________________________________________________________________________
– Eitt eilífðar smáblóm…og nú fer þetta að hefjast.
– Nú fara þjóðsöngvarnir í gang og því styttist óðar í að leikurinn hefjist…
– Svíar hafa unnið alla þrjá leiki sína á mótinu til þessa í U16 kvenna rétt eins og Finnar og ljóst að íslensku stelpurnar eru á leið inn í átakaleik.
– Nú eru um það bil 15 mínútur í leik.



