Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Íslands og Svíþjóðar á Norðurlandamótinu í U18 kvennaflokki.
Viðtal við Ingvar Guðjónsson aðstoðarþjálfara U18 ára liðsins
– Ingunn Embla Kristínardóttir var stigahæst í íslenska liðinu í dag með 17 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá var Sandra Lind Þrastardóttir með 16 stig og 10 fráköst, flottur leikur hjá þeim Keflavíkurstöllum. Marín Laufey og Sara Rún bættu svo við 7 stigum hvor.
– 4. leikhluti
– Svíar gerðu 17 þriggja stiga körfur í leiknum!
– Leik lokið…Svíar höfðu sigur gegn Íslandi í U18 kvenna – lokatölur 63-82
– 63-77 og íslenska liðið skellir niður þrist þegar ein og hálf mínúta er til leiksloka, þessi munur er einfaldlega of mikill. Svíar hafa haldið vel á spilunum og eru hér að vinna verðskuldaðan sigur. Íslenska liðið barðist vel og gerði margt gott en það er erfitt að keppa við það stuð sem heimakonur í Svíþjóð hrukku í fyrir utan þriggja stiga línuna og þar lá einfaldlega munurinn á liðunum í dag.
– 58-72 og 2.26mín eftir af leiknum. Íslenska liðið er að pressa það sænska úti um allan völl og freista þess að vinna boltann og skora þessar auðveldu körfur.
– 57-70 og 6-0 áhlaup hjá íslenska liðinu þegar fjórar mínútur eru eftir, flott rispa hjá stelpunum, munurinn 13 stig og það er nú ekki mikið á fjórum mínútum í körfubolta.
– Fjórði leikhluti er hálfnaður, staðan 51-70 og Svíar láta þetta ekki af hendi. Það eru læti í íslensku vörninni og verið að gera allt til að klóra sig nærri en það tekur á stelpurnar hvað Svíar eru að raða niður fyrir utan.
– 48-65…nei kemur á óvart, sænskur þristur. Körfuhringurinn er bara eins og bali í huga þeirra sænsku, það fer allt beina leið niður hjá þeim, sama hvar og hvernig þær henda þessu í átt að körfunni. Ísland tekur leikhlé þegar 7.05 mín eru til leiksloka.
– 48-62 Marín Laufey með fyrstu stig fjórða leikhluta af vítalínunni og munurinn 14 stig og 8 mínútur til leiksloka. Það eru töggur í íslenska liðinu sem hefur t.d. haft betur í frákastabaráttunni og nú þarf að loka á Svíana.
– Svíar byrja með boltann…

(Barist um fráköstin í Solnahallen)
– 3. leikhluti
– Þriðja leikhluta er lokið, staðan er 46-62 fyrir Svíþjóð sem gerðu 21 stig úr þriggja stiga skotum í leikhlutanum. Hér hefur rignt eldi og brennistein yfir íslensku svæðisvörnina og munurinn 16 stig þegar liðin halda inn í fjórða og síðasta leikhluta. Svíar hafa skorað 14 þriggja stiga körfur fyrstu þrjá leikhlutana.
– 45-60…og annar til, þetta er með hreinum ólíkindum! Svíar láta gersamlega rigna fyrir utan þriggja stiga línuna. Svæðisvörnin er einfaldlega máttlaus gegn heitum Svíum.
– 45-57 og Svíar skella þrist í andlit íslensku varnarinnar, þær gulu og bláu eru funheitar!
– 45-54 Hallveig Jónsdóttir gerir sín fyrstu stig í leiknum af vítalínunni og 1.30mín eftir af þriðja.
– 43-52 og tólfti sænski þristurinn og heimakonur stela síðan boltanum og skora í bakið á íslenska liðinu og breyta stöðunni í 43-54, munurinn 11 stig og 1.52mín eftir af þriðja leikhluta þegar íslenska liði biður um leikhlé.
– 41-49 og sænskur þristur og sá ellefti hjá heimakonum, Svíar með 33 stig af 49 úr þristum.
– 41-46 Ingunn Embla með tvö víti og komin með 13 stig fyrir Ísland.
– 39-46 og það var íslenskur þristur sem húrraði sér í gegnum körfuhringinn frá Ingunni Emblu, 4.47mín eftir af þriðja leikhluta.
– Nei, ekki varð breyting á, Ísland heldur sig við svæðisvörnina eftir leikhléið, 6.37mín eftir af þriðja leikhluta.
– 34-43…jú þið giskuðuð á það…tíundi þristurinn hjá Svíum! Hvað er að gerast hérna, leikhlé og þrjár mínútur liðnar af síðari hálfleik. Svíar með 9-2 dembu á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Held að Íslendingar ættu að endurskoða svæðisvörn sína alvarlega, hreinlega skipta í maður á mann vörn og loka á skytturnar.
– 34-40 og níundi Svíaþristurinn er fæddur. Heimakonur eru að leysa vel úr svæðisvörn Íslendinga og bót þarf að gera á máli.
– 34-37 Svíar setja þrist, þann áttunda í leiknum! Nú fer þetta að verða komið gott…er það ekki?
– 34-34 Sandra Lind jafnar eftir flott innkastkerfi og hún komin með 12 stig í íslenska liðinu.
– Síðari hálfleikur er að hefjast…Ísland byrjar með Ingunni Emblu, Söru Rún, Marínu Laufeyju, Söndru Lind og Lovísu Björt. Íslendingar eiga boltann og hefja leik.
Skotnýting Íslands í hálfleik
Tveggja 34,8% – þriggja 75% og víti 58,3%

(Aníta og Lovísa undirbúa hér smá „vagg og veltu“ undir lok fyrri hálfleiks)
– 2. leikhluti
– 32-34 og fyrri hálfleik er lokið. Svíar eru að refsa okkur utan við þriggja stiga línuna með sjö þrista á 20 mínútum. Sandra Lind Þrastardóttir er stigahæst í hálfleik með 10 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
– 30-31 og Lovísa setur íslenskan þrist en Svíar svara í sömu mynt og 30-34, sjö talsins þristarnir hjá Svíum!
– 27-31 Sandra Lind með eitt víti fyrir Ísland en hún hefur tekið 10 víti hér í fyrri hálfleik.
– 26-31 og Svíar voru hér að setja sinn sjötta þrist í fyrri hálfleik. Svæðisvörnin frá Íslandi er ekki að loka á það að Svíar fái góð „look“ fyrir utan og þá er bara spurningin sú, á að halda sig við svæðið eða prófa maður á mann vörn? Það amk gengur ekki að mæta Svíum ekki betur fyrir utan þriggja stiga línuna.
– 26-28 Elsa Rún Karlsdóttir með sín fyrstu stig í leiknum fyrir íslenska liðið. 2.50mín til hálfleiks.
– 24-23 Ingunn Embla skorar úr hraðaupphlaupi, þá hafa þær stöllur Marín Laufey og Sandra Lind verið til fyrirmyndar í frákastabaráttunni. Hér stendur yfir jafn og spennandi leikur, Svíar leika sína maður á mann vörn framarlega en Íslendingar eru í svæðisvörn.
– 20-19 Ingunn Embla kemur Íslandi yfir með þriggja stiga körfu og tvær mínútur eru liðnar af öðrum leikhluta.
– 17-19 og Svíar eru hér trekk í trekk að skora um leið og skotklukkan þeirra er að renna út, þær komast ekki upp með það allan leikinn svo stelpurnar okkar eru að leika sterka vörn og Svíar oftar en ekki að taka erfið skot. Það er hvimleitt þegar þau detta en svoleiðis hlutir vara aldrei í heilar 40 mínútur.
– 15-14 Ingunn Embla kemur Íslandi yfir með teigkörfu strax í upphafi annars leikhluta.

(Sandra Lind kom eins og fellibylur inn í fyrsta leikhluta hjá íslenska liðinu)
– 1. leikhluti
– Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 13-14 en Sandra Lind kom Íslandi í 13-11 með tveimur vítum en Svíar settu þrist um leið og leiktíminn rann út. Sandra Lind kom inn í miðjum fyrsta leikhluta og er komin með 7 stig og 3 fráköst og hefur verið kjarninn í baráttu íslenska liðsins. Frábær innkoma og ljóst að Sandra er í háa drifinu fyrir leik dagsins!
– 11-11 Sandra Lind með tvö víti og innkoman hjá henni mögnuð af tréverkinu.
– 10-11 Marín Laufey með flott „drive“ eftir endalínunni og skorar laglega körfu, 2.00mín eftir af fyrsta leikhluta.
– 6-8 Sandra Lind ákveðin inn af bekknum og splæsir í rándýrt sveifluskot af gamla skólanum, „retro“ tilþrif hjá stelpunni.
– 4-5 Sara Rún Hinriksdóttir setur þrist og þar losnaði loks um sóknarhömlur íslenska liðsins, þessi var langþráður enda sex mínútur liðnar af fyrsta leikhluta.
– 1-5 fyrir Svíþjóð og 5.14mín eftir af fyrsta leikhluta þegar Margrét Sturlaugsdóttir fær sig fullsadda af frammistöðu sinna kvenna og kallar þær á tréverkið. Upphafsmínúturnar hafa verið mistækar hjá íslenska liðinu og ekkert af skotunum viljað niður til þessa, 0 af 5 í teignum.
– Ísland mætir með svæðisvörn til leiks.
– 1-3 Ingunn Embla með eitt víti niður af tveimur en fyrstu fjögur teigskot íslenska liðsins hafa dansað af hringnum.
– 0-3 Svíar byrja með þrist en þessi fyrstu stig komu ekki fyrr en eftir eina og hálfa mínútu.
– Leikurinn er hafinn og það eru Íslendingar sem vinna uppkastið.
– Byrjunarlið Íslands: Ingunn Embla Kristínardóttir, Hallveig Jónsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Marín Laufey Davíðsdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir.
– Ingunn Embla Kristínardóttir hefur leikið vel fyrir íslensku U18 ára stelpurnar og verður fróðlegt að fylgjast með henni í dag. Rétt eins og í gær gegn Finnum þá er hún ekki íklædd andlitsgrímunni sem hún hefur leikið með síðustu vikur.
– U18 ára stelpurnar höfðu spennusigur á Finnum í gær og var það í fyrsta sinn í háa herrans tíð sem 18 ára lið frá Íslandi leggur Finna. Nú er komið að stelpunum að etja kappi við Svía og svona fyrirfram má gera ráð fyrir því að þær sænsku geri svipaða hluti og 16 ára liðið þeirra, mæti framarlega á völlinn og freisti þess að þvinga íslensku bakverðina í vitleysur.
– Nú eru tæpar tíu mínútur í leik. Svíar hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa en Ísland tapað einum. Búist er við miklum slag millum liðanna.



