spot_img
HomeFréttirHeat og Pacers opna seríuna með látum

Heat og Pacers opna seríuna með látum

Miami Heat tók 1-0 forystu í úrslitum Austurstrandar NBA deildarinnar í nótt þegar liðið lagði Indiana Pacers með eins stigs mun eftir framlengdan slag. LeBron James skilaði af sér glæsilegri þrennu og jú…sigurkörfunni líka! Lokatölur voru 103-102 Miami í vil.
 
Leikurinn var framlengdur í stöðunni 92-92. Framlengingin var ekki síður spennandi eins og gefur að skilja en Miami vann hana 11-10. Útlitið var ekki gott fyrir ríkjandi meistarana eftir að Dwyane Wade hafði brotið á Paul George í þriggja stiga skoti, George „ísaður“ smellti niður öllum vítunum og kom Indiana í 101-102 þegar 2,2 sekúndur voru eftir af leiknum. Heat tóku innkastið og fundu LeBron sem fór sterkt að körfunni, enginn Hibbert í teignum og LeBron skoraði næstum furðu auðveldlega um leið og leiktíminn rann út. Magnaður slagur!
 
Þetta var í níunda sinn á ferli James sem hann gerir þrennu í úrslitakeppninni, kappinn skilaði 30 stigum, 10 fráköstum og 10 stoðsendingum og þá var hann einnig með 3 varin skot! Dwyane Wade setti 19 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar í púkkið en Paul George var með 27 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar hjá Indiana. David West var svo með 26 stig og 5 fráköst.
 
Topp 5 tilþrif næturinnar
 
 
Mynd/ Sigurstigin hjá James gegn Pacers í nótt.
  
Fréttir
- Auglýsing -