spot_img
HomeFréttirÚrslitakeppnin á Spáni hefst í kvöld

Úrslitakeppnin á Spáni hefst í kvöld

Úrslitakeppnin í ACB deildinni á Spáni hefst í kvöld. Jón Arnór Stefánsson og CAI Zaragoza mæta Valencia í sínum fyrsta leik en Valencia hefur heimaleikjaréttinn í seríunni. Í öðrum viðureignum mætast Real Madrid og Blusens Monbus, Barcelona og Bilbao og svo Labor Kutxa og Gran Canaria.
 
Jón er svo sem staðháttum ekki ókunnugur hjá Valencia en hann lék með liðinu um það bil hálfa leiktíð áður en hann fór til Roma á Ítalíu.
 
Fyrsti leikur liðanna er í kvöld, annar leikurinn fer fram á heimavelli Zaragoza þann 26. maí og þriðji leikurinn þann 28. maí. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í undanúrslit.
 
Valencia og Zaragoza mættust fyrst í deildinni í 3. umferð á heimavelli Valencia þar sem heimamenn höfðu 83-73 sigur í leiknum. Jón skoraði 5 stig í þeim leik og var með eitt frákast á tæpum 23 mínútum. Liðin skiptu deildarleikjunum bróðurlega á milli sín því í 22. umferð hafði Zaragoza sigur á heimavelli gegn Valencia 76-62 en Jón tók ekki þátt í þeim leik. Henk Norel og Sam Van Rossom voru þá báðir með 17 stig fyrir Zaragoza.
 
Spánverjar eru tveimur klukkustundum á undan okkur Íslendingum, viðureign Valencia og Zaragoza hefst kl. 20:30 að staðartíma eða kl. 18:30 að íslenskum tíma.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -