Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, mun halda atvinnumannaferli sínum áfram í austurhluta Evrópu. Hún mun á næsta keppnistímabili leika í Ungverjalandi en Helena staðfesti þetta við Morgunblaðið í gærkvöldi. www.mbl.is greinir frá í dag.
Helena gerði á dögunum samkomulag við ungverska liðið Miskolc en félagið mun væntanlega tilkynna félagaskiptin í dag en Helena lék síðustu tvö tímabil með Good Angels Kosice í Slóvakíu. Þessi lönd eru einmitt með eina sameiginlega deild í körfubolta kvenna fyrir utan sínar hefðbundnu deildakeppnir.
Miskolc mun einmitt leika í þeirri deild í vetur en einnig í EuroCup Evrópukeppninni sem segja má að sé næsta keppni á eftir Meistaradeildinni í styrkleika. Helena og samherjar hennar í Good Angels fóru alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili.
Miskolc hafnaði í 6. sæti í deildakeppninni á síðasta tímabili. Liðið datt út í undanúrslitum úrslitakeppninnar og tapaði þá fyrir liðinu sem tapaði í úrslitarimmunni um titilinn. Liðið mun vera á uppleið og ætlar sér stærri hluti á næstu árum.
www.mbl.is



