Leikstjórnandinn öflugi George Hill hjá Indiana Pacers hefur dregið sig út úr æfingahópi bandaríska landsliðsins sem þessa dagana æfir saman í undirbúningi fyrir HM 2014.
Jerry Colangelo formaður USA Basketball segist ekki vita nákvæmlega ástæður þess að Hill hafi dregið sig úr hópnum en æfingar landsliðsins munu hafa stangast á við önnur verkefni leikmannsins er það næsta sem miðlar vestanhafs komast. Colangelo sagðist myndu grennslast betur fyrir um málið áður en hann tæki ákvörðun til frambúðar um stöðu og framtíð Hill á meðal bandaríska landsliðsins.
Bandaríkjamenn hafa þegar tryggt sæti sitt á HM 2014 sem fram fer í Madríd á Spáni en þessa dagana æfa um 28 ungir leikmenn með landsliðinu svo þjálfarinn Mike Krzyzewski og starfsmenn liðsins geti metið þá. Hill var með 14,8 stig og 4,9 stoðsendingar hjá Indiana á síðustu leiktíð.



