Skallagrímur endurnýjaði nýverið samninga við fjóra leikmenn meistaraflokks sem hafa verið á mála hjá félaginu. Annars vegar skrifuðu Davíð Ásgeirsson og Atli Aðalsteinsson undir tveggja ára samninga og hins vegar Trausti Eiríksson og Davíð Guðmundsson, sem skrifuðu undir eins árs samninga. www.skallagrimur.is greinir frá.
Pálmi Þór Sævarsson þjálfari Skallagríms kvaðst vera ánægður með að liðið hafi tryggt sér áfram liðsinni þessara ungu leikmanna sem allir eru heimamenn. Trausti er fæddur árið 1991, Davíð Ásgeirsson árið 1993 og Davíð Guðmundsson og Atli árið 1994.
„Fyrir liðið skiptir máli að tefla fram heimamönnum en það er ein aðal forsenda þess að hér sé körfuboltalið. Strákarnir sýndu allir miklar framfarir á síðasta leiktímabili og lögðu sig töluvert fram. Ég á von á sama framlagi frá þeim á næstu leiktíð og munu þeir því styrkja hópinn,“ segir Pálmi sem er spenntur fyrir tímabilinu sem framundan er.
www.skallagrimur.is
Mynd/ Ómar – Trausti Eiríksson verður áfram á meðal „Skallanna“



