Á morgun, fimmtudag, föstudag og laugardag munu Íslendingar mæta Dönum í æfingaleikjum en báðar þjóðir undirbúa sig nú af kappi fyrir undankeppni Eurobasket 2015. Í boði er laust sæti á Eurobasket 2015 (EM) fyrir þá eina þjóð sem stendur uppi sem sigurvegari en þessar þjóðir féllu út úr riðlakeppni EM síðastliðið sumar en úrslit EM 2013 fara fram nú síðsumars. Um fyrirkomulag er að ræða þar sem þjóðir sem ekki komust áfram í núverandi Evrópukeppni (2013) geta tryggt sig inn í þá næstu (2015) og verður þessi eina þjóð því í raun fyrst allra til að tryggja sig inn á lokakeppnina 2015 án þess að hafa komist í lokakeppnina 2013.
Á morgun 25. júlí mætast U22 ára lið Íslands og Danmerkur og A-landsliðin. Á morgun fara báðir leikirnir fram í Ásgarði í Garðabæ, U22 ára liðin mætast kl. 17:00 og A-liðin kl. 19:15.
26. júlí – Keflavík
19:15 Ísland-Danmörk, A-landslið þjóðanna
27. júlí – Ásgarður
12:30 Ísland-Danmörk, U22 ára lið þjóðanna.
Leikirnir á morgun, fimmtudag, og leikurinn á föstudag verða sýndir beint á SportTV.
Peter Öqvist þjálfari A-landsliðsins sagði á blaðamannafundi KKÍ í dag að mikilvægt væri að fá æfingaleiki núna fyrir leikina gegn Búlgaríu og Rúmeníu í ágúst þegar komið verður í undankeppni Eurobasket 2015. Ísland leikur í A-riðli með Búlgaríu og Rúmeníu en liðið sem vinnur þennan riðil mætir sigurvegara úr C-riðli en þar leika Danmörk, Sviss, Austurríki og Lúxemborg. Öqvist sagði bæði Búlgari og Rúmena mæta með sín sterkustu lið til leiks og sagði íslenska liðið eiga bæði spennandi og erfitt verkefni fyrir höndum.
Mynd/ www.kki.is – Af blaðamannafundi KKÍ fyrr í dag.



