Yulia Anikeeva er nýr forseti rússneska körfuknattleikssambandsins og er fyrsta konan til þess að gegna því embætti. Andrei Krasnenkov var látinn fara sem forseti sambandsins eftir ósætti og ágreining við stjórn sambandsins.
Anikeeva er einnig á meðal lykilmanna í VTB United League sem stofnuð var árið 2008 en markmið þeirrar deildar er að sameina bestu klúbbana í Austur- og Norður-Evrópu í eina deild. VTB Bankinn er aðalstyrktaraðili þeirrar deildar.
Helsta ástæða þess að Andrei Krasnenkov var látinn fara var sú að hann vildi ekki að lið yrði rússneskur meistari í gegnum VTB United League en rússneska sambandið virðist vera á öðru máli. Að þessu sögðu verður Anikeeva því fyrsti kvenforsetinn í 22 ára sögu rússneska sambandsins og leikur þar af leiðandi beggja megin við borðið, hjá sambandinu og VTB United League.
Eins og staðan er í dag þá gefur rússneska deildin sæti í Meistaradeild Evrópu en ef markmið VTB United League ná fram að ganga verður lið aðeins rússneskur meistari í gegnum þá deild og þannig munu lið öðlast sæti í meistaradeildinni (Euroleague). Það verður því nokkuð fróðlegt að fylgjast með framgangi mála í Rússlandi á næstu misserum.



