spot_img
HomeFréttirEuroBasket hefst eftir 7 daga

EuroBasket hefst eftir 7 daga

Eftir viku hefst veislan þegar fyrsta uppkastið fer á loft á EuroBasket 2013 sem haldið verður í Slóveníu 4.-22. september. 24 lið taka þátt á lokamótinu og hafa þau verið dregin saman í fjóra 6-liða riðla.
 
Næstu fjóra daga ætlum við hér á karfan.is að fara yfir riðlana og spá í spilin um hvaða lið fara áfram í keppninni.
 
Þrjú efstu í hverjum riðli fara áfram (samtals 12 lið) í tvo milliriðla þar sem fjögur efstu í hvorum riðli fara í 8-liða úrslit.
 
A-riðill: (leikið í Ljubijana, Slóveníu)
Í riðlinum leika Úkraína, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ísrael og Belgía.
 
Fyrirfram eru Frakkar sigurstranglegir eftir að hafa hlotið bronsið í Litháen 2011 og leikið á síðustu Ólympíuleikum en þeir mæta nú með nokkuð breytt lið til leiks. Hjá þeim fer fremstur Tony Parker sem hefur þá Nicolas Batum, Nando De Colo og Boris Diaw sér við hlið en Joakim Noah gaf ekki kost á sér að þessu sinni.
 
Bretar eru með einnig með ungt og breytt lið og eru án sinnar helstu hetju Lou Deng og sömu sögu er að segja af Þýskalandi sem leikur án Dirk Nowitzki. Bæði lið munu þurfa að hafa fyrir hlutunum til að fara áfram.
 
Íslandsvinirnir í Ísrael skipa svipuðu liði og mætti okkur í undankeppninni í fyrra þar sem Omar Casspi fer fyrir liðinu og eru þeir líklegir til að ná einu af topp 3 sætum riðilsins. Belgar hafa verið að bæta sig undanfarin ár og eru líklegir til að vera eitt af spútnik liðum riðilsins með góðum úrslitum.
 
Úkraína eru dálítið óskrifað blað, lentu í öðru sæti á eftir Króatíu í undankeppninni þar sem þeir töpuðu bara tvisvar fyrir þeim og unnu rest, en léku í frekar auðveldum riðli. Hinsvegar er mikil körfuboltahefð í Úkraínu og liðið með öfluga leikmenn í sínum röðum og ljóst að gestgjafar EuroBasket 2015 vilja sanna sig í ár.
 
Okkar spá er að Frakkar ættu að vera öryggir áfram en hörð keppni verði um næstu tvö sæti í riðlinum.
 
Topp 3 spá karfan.is í A-riðli: Frakkar, Úkraína, Ísrael.  
Fréttir
- Auglýsing -