spot_img
HomeFréttirÖlli: Fjölmenni við frumsýninguna í Háskólabíó

Ölli: Fjölmenni við frumsýninguna í Háskólabíó

Heimildarmyndin Ölli um Örlyg Aron Sturluson var frumsýnd í Háskólabíó í kvöld en fjölmenni lagði leið sína á sýninguna. Myndinni er leikstýrt af Garðari Erni Arnarsyni og framleidd af Erlingi Jack Guðmundssyni. Myndin er um líf og leik Örlygs sem jafnan er talinn eitt mesta efni sem komið hefur fram á sjónarsviðið í íslenskum körfuknattleik.
 
Í myndinni kennir ýmissa grasa en þar er rætt við fjölskyldumeðlimi, vini og vandamenn sem og liðsfélaga, þjálfara og fjölmiðlamenn um ævi Örlygs. Örlygur var Njarðvíkingur sem 16 ára var farinn að skipa sér á sess með fremstu körfuknattleiksmönnum þjóðarinnar.
 
Minningar- og styrktarsjóður Ölla tekur til starfa í haust og í kvöld rann allur ágóðinn af sýningunni í sjóðinn þar sem söfnuðust 1,4 milljónir króna. Markmið sjóðsins er að styrkja börn sem minna mega sín til íþróttaiðkunar. Hér má heyra viðtal við Maríu Rún Reynisdóttur og Særúnu Lúðvíksdóttur móður Örlygs um myndina og sjóðinn í síðdegisútvarpi Rásar 2.
 
Sambíóin í Keflavík munu m.a. taka myndina til sýningar annað kvöld kl. 20:00 og verður hún sýnd yfir Ljósanæturhelgina í Reykjanesbæ. Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu myndarinnar.
 
Að lokinni frumsýningu í kvöld ræddi Karfan.is stuttlega við leikstjóra myndarinnar Garðar Örn Arnarson sem og æsku- og liðsfélaga Örlygs, Loga Gunnarsson:
 
 
 
Myndir/ Garðar Örn leikstjóri myndarinnar um Ölla ásamt unnustu sinni Eydísi Ásu. Á neðri myndinni eru aðstandendur myndarinnar leystir út með blómum í Háskólabíói í kvöld. Þriðja og neðsta myndin er svo plakat myndarinnar um Örlyg.
 
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -