Pavel Ermolinskij mun leika með KR í Domino´s deildinni á komandi tímabili en frá þessu var greint á blaðamannafundi sem körfuknattleiksdeild KR stóð að á Kex Hostel í Reykjavík fyrr í dag.
Pavel var á síðustu leiktíð á mála hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Norrköping Dolphins en félagið ákvað að semja ekki við Pavel á nýjan leik og var sú skýring gefin í sænskum fjölmiðlum að leikmaðurinn hefði þótt of dýr og að endurskipulagningar væri þörf í röðum höfrunganna. Í samtali við Karfan.is í dag kvaðst Pavel ekki spenntur fyrir þeim erlendu verkefnum sem í boði voru og þá greindi hann einnig frá því að hann hefði átt í viðræðum við önnur lið í íslenska boltanum.
Ekki þarf að fjölyrða um þennan hvalreka á fjörur KR-inga enda Pavel á meðal fremstu leikmanna þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í liði þeirra röndóttu á komandi leiktíð.



