spot_img
HomeFréttirRiðlakeppni Lengjubikarsins lýkur í kvöld

Riðlakeppni Lengjubikarsins lýkur í kvöld

Í kvöld fer fram síðasta umferðin í riðlakeppni Lengjubikars karla. Samtals eru þetta átta leikir en tvö efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í 8-liða úrslit eftir leikina í kvöld. Sjö af átta leikjum kvöldsins hefjast kl. 19:15 en viðureign Vals og Tindastóls fer fram kl. 19:30 í Vodafonehöllinni.
 
19:15 KFÍ-Hamar
19:15 Skallagrímur-Stjarnan
19:15 Grindavík-Keflavík
19:15 ÍR-Breiðablik
19:15 KR-Snæfell
19:15 Þór Þorlákshöfn-Fjölnir
19:15 Haukar-Njarðvík
19:30 Valur-Tindastóll
 
A-riðill:
Keflvíkingar eru komnir í 8-liða úrslit með 10 stig en 2. sætið verður að veði í kvöld. Grindvíkingar hafa 6 stig og Tindastóll 4. Grindavík þarf sigur gegn Keflavík í kvöld til að tryggja sig áfram eða treysta því að Tindastóll tapi gegn Val í Vodafonehöllinni. Ef Grindavík tapar og Tindastóll vinnur Val í kvöld verða Tindastóll og Grindavík jöfn að stigum og þá mun Tindastóll fara í 8-liða úrslit þar sem Stólarnir hafa betur innbyrðis gegn Grindavík. Valsmenn eru án stiga í riðlinum og hafa því lokið keppni eftir leik kvöldsins.
 
B-riðill:
Njarðvíkingar eru komnir áfram í 8-liða úrslit og mæta þar annað hvort Grindavík eða Tindastól. Haukar og Þór Þorlákshöfn berjast um 2. sæti í B-riðli. Haukar hafa 6 stig en Þór Þorlákshöfn 4. Ef Haukar tapa gegn Njarðvík í kvöld og Þórsarar leggja Fjölni þá verða liðin jöfn að stigum og Þór mun komast í 8-liða úrslit þar sem Þórsarar hafa betur innbyrðis gegn Haukum. Haukar þurfa því helst að vinna Njarðvíkinga til að tryggja sig í 8-liða úrslit því Fjölnismenn halda í Þorlákshöfn í kvöld og það án stiga og þykja því ekki líklegir til árangurs í Icelandic Glacial Höllinni. Haukum er því hollast að leggja Njarðvíkinga í kvöld ellegar treysta á Fjölnissigur í Þorlákshöfn.
 
C-riðill:
Fyrir leikir kvöldsins er Stjarnan með 8 stig í C-riðli en KFÍ og Skallagrímur hafa bæði 6 stig í C-riðli. Stjarnan má tapa með 16 stigum eða minna gegn Skallagrím í kvöld en þá verða liðin jöfn að stigum og Stjarnan mun því enn hafa betur innbyrðis gegn Borgnesingum. Að sama skapi er KFÍ að taka á móti stigalausum Hvergerðingum á Jakanum og virðast þau tvö stig nokkuð örugg í eign Ísfirðinga. Eina leið Skallagríms til að komast áfram í 8-liða úrslitin er að vinna Stjörnuna í kvöld og vona að Hamar vinni á Jakanum. Þannig fara Stjarnan og Skallagrímur áfram í 8-liða úrslit. KFÍ dugir sigur í kvöld til að komast áfram og gera það svo fremi sem Skallagrímur vinni ekki 18 stiga sigur eða meira á Stjörnunni þegar liðin mætast í Borgarnesi. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í C-riðli í kvöld.
 
D-riðill:
KR hefur tryggt sér sigur í D-riðli með því að vinna alla fimm leiki sína og þá eru Hólmarar öruggir með 2. sætið í riðlinum. ÍR hefur aðeins 2 stig í 3. sæti og Breiðablik er á botninum án stiga. Viðureign KR og Snæfells í kvöld skiptir því ekki máli upp á framhaldið í riðlinum, bæði KR og Snæfell fara í 8-liða úrslit en okkur segir svo hugur að Ingi Þór haldi ekkert með Snæfell á gamla heimavöllinn til þess að láta valta yfir sig og að röndóttir ætli sér allt annað en að fara að tapa leik núna eftir fimm sigra í röð í Lengjubikarnum. Úrslit í leik KR og Snæfells skipta þó máli upp á hvort liðið vinni riðilinn og fái heimaleik í 8-liða úrslitum. KR vann fyrri leikinn gegn Snæfell með tveggja stiga mun svo Hólmurum dugir þriggja stiga sigur eða meira í kvöld til að vinna D-riðil.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -