Evrópumeistaramótinu í Slóveníu er lokið. Frakkar eru Evrópumeistarar í fyrsta sinn eftir sögulegan sigur á Litháen. Það voru svo Spánverjar sem tóku bronsið eftir öruggan sigur á Króötum. Tony Parker var verðskuldað valinn besti leikmaður mótsins en þessi 31 árs gamli Frakki var með 19,7 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik á mótinu í Slóveníu.
Í úrslitaleiknum í dag var jafnt á með liðunum í fyrsta leikhluta en Frakkar unnu annan leikhluta 31-12 og lögðu þar með grunninn að sínum fyrsta Evrópumeistaratitli. Lokatölur 80-66 Frakkland í vil þar sem Nicolas Batum var stigahæstur í franska liðinu með 17 stig og 6 fráköst, Boris Diaw var með 15 stig og 6 fráköst og Tony Parker bætti við 12 stigum, 2 fráköstum og 3 stoðsendingum. Hjá Litháum var Linas Kleiza stigahæstur með 20 stig og svo 5 fráköst.
Úrvalslið Evrópumeistaramótsins:
Tony Parker – Besti leikmaður
Goran Dragic
Bojan Bogdanovic
Linas Kleiza
Marc Gasol
Sex efstu liðin í Slóveníu urðu Frakkland, Litháen, Spánn, Króatía, Slóvenía og Úkraína og hlutu þau öll keppnisrétt á HM 2014.
Mynd/ FIBA Europe – Frakkar fögnuðu Evrópumeistaratitlinum í Slóveníu í kvöld.



