Borgnesingar og nærsveitungar vissu ekki sitt rjúkandi ráð í upphafi leiks gegn Stjörnunni í kvöld þegar Garðbæingar komu í heimsókn í Fjósið í lokaumferð Lengjubikarsins í kvöld. Gestirnir byrjuðu af feiknarkrafti á meðan Sköllunum voru afar mislagðar hendur og fætur hvert sem litið var á vellinum. Þegar tæpar 6 mínútur voru liðnar af var staðan 1-22, þá loksins skoruðu Borgnesingar utan af velli. Stjarnan hélt þó uppteknum hætti og munurinn 20 stig að loknum 10 mínútna leik, 12-32.
Borgnesingar mættu loks til leiks í 2. leikhluta og veittu þá gestunum duglega mótspyrnu. Þeir minnkuðu muninn hægt og bítandi, með góðum varnarleik og baráttu. Stjörnumenn héldu þó forystunni með naumindum og þegar flautað var til hálfleiks leiddu þeir 42-44 sem var minnsta forskot þeirra í öllum leiknum.
Svo virðist sem olían hafi verið búin á vél Fjósamanna er seinni hálfleikurinn hófst, því það tók gestina ekki langan tíma að ná öruggu forskoti á ný. Undir öruggri stjórn Justin Shouse sigldu þeir fram úr og virtust Skallarnir engin svör eiga. Þegar komið var inní 4.leikhluta var Stjarnan aftur komin með 20 stiga forskot. Þá hrökk mjaltavélin skyndilega í gang aftur og nýliðinn Mychal Greene, nýlentur á skerinu, fór að láta til sín taka. Það var þó heldur seint í rassinn gripið og Stjörnumenn lönduðu öruggum sigri í lokin.
Justin Shouse stjórnaði sínum mönnum vel í kvöld og átti fínan leik, þrátt fyrir að hitta fremur illa. Marvin var drjúgur og Kjartan Atli átti fína innkomu undir lokin og setti nokkrar rándýrar körfur. Mychal Greene lofar góðu hjá Sköllunum og setti 25 stig á 30 mínútum. Trausti skilaði flottum tölum, 13 stig og 17 fráköst, aðrir voru talsvert frá sinu besta í kvöld.
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson
Myndir/ Ómar Örn Ragnarsson




