Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Snæfelli úr Stykkishólmi í 8-liða úrslitum Lengjubikars karla á heimavelli sínum Ásgarði í Garðabæ. Rimmur þessara liða hafa oftar en ekki verið stórskemmtilegar, og skemmst er að minnast þess er Stjarnan hafði betur í frábærri viðureign í undanúrslitum Íslandsmótsins síðastliðið vor.
Leikur kvöldsins var lítil breyting þar á en jafnt var með liðunum nánast allan leikinn. Eftir nokkuð brösuga byrjun tókst þunnskipuðu liði heimamanna að halda í við gestina, sem tefldu fram sterku liði, en gestirnir náðu tveggja tölustafa forskoti strax í fyrsta fjórðung, sem heimamenn sneru sér í vil og leiddu í hálfleik 45-42.
Seinni hálfleikur var svo spennandi fram að síðustu mínútum, en jafnt var fyrir lokafjórðunginn, 69-69. Þá skoraði Kristján Andrésson fimm stig í röð fyrir Snæfell í upphafi lokafjórðungsins, og við það virtust gestunum einfaldlega vaxa ásmegin. Þunnskipaðir Stjörnumenn gerðu hvað þeir gátu til að halda í við gestina, en að lokum sigldu Hólmarar sigrinum nokkuð þægilega í höfn, og komast því í undanúrslit Lengjubikars karla þetta árið. Lokatölur 85-97, sem gefa kannski ekki alveg rétta mynd af gangi leiksins, enda stungu gestirnir af á síðustu mínútu leiksins.
Ljóst er að Stjörnumenn tefldu ekki fram sínu sterkasta liði í kvöld, en einungis sjö leikmenn þeirra tóku þátt í leiknum. Nýr Bandaríkjamaður er þó væntanlegur í Garðabæ á næstu dögum og verður spennandi að sjá hvernig hann passar í þegar gott lið. Hólmarar voru hins vegar með sitt sterkasta lið, fyrir utan að Jón Ólafur Jónsson var í borgaralegum klæðum vegna meiðsla. Nýr Bandaríkjamaður, Zachary Warren, leit þokkalega út hjá Snæfelli og mun eflaust mæða mikið á honum á komandi vetri.



