Helena Sverrisdóttir og félagar í ungverska liðinu Miskolc hefja leik í kvöld í MEL deildinni er liðið mætir Ruzomberok sem hafnaði í 2. sæti í Slóvakíu á síðasta tímabili. MEL deildina skipa sterk lið frá nokkrum Austur-Evrópulöndum. Helena fór með Miskolc til Kosice á dögunum þar sem liðið tók þátt í æfingamóti og lék m.a. gegn Good Angels, fyrrum liði Helenu.
Helena lék lítið sem ekkert í æfingamótinu þegar Miskolc mætti Good Angels en hún tognaði smávægilega á kálfa. „Ég spilaði í fyrsta leiknum á móti Prague en við töpuðum stórt í þeim leik,“ sagði Helena í samtali við Karfan.is í morgun. Helena tók svo ekki þátt í næstu tveimur æfingaleikjum og var á tréverkinu m.a. í leiknum gegn Good Angels.
Í kvöld hefst svo alvaran þegar Ruzomberok mætir í heimsókn til Miskolc: „Ég er bara mjög spennt, fyrsti alvöru leikurinn okkar í kvöld og að vera á heimavelli er spennandi því það er umtalað hversu góða stuðningsmenn liðið eigi. Ég er enn að glíma við kálfameiðslin en það mun vonandi ekki hafa of mikil áhrif.“
Mynd af Twitter-síðu Helenu – Liðsmenn Miskolc og þar með talin Helena voru í myndatöku í morgun.



