Keflavík og KR munu leika til úrslita um Lengjubikarinn 2013 þar sem KR lagði Grindavík 76-70 í síðari undanúrslitaviðureign kvöldsins í Ljónagryfjunni. Hart var barist í kvöld og minnstu munaði að uppúr syði. KR átti lokasprettinn og sýndu af sér seiglu og góða baráttu þegar þeir náðu forystunni á nýjan leik á lokasprettinum og kláruðu verkið með sigri. Ingvaldur Magni átti góðan dag í liði KR og þá var Jóhann Árni sterkur í liði Grindavíkur. Það var haustbragur á ferðinni en líka ljósir punktar og þessi tvö lið gera tilkall í það „bling“ sem í boði verður þennan veturinn, það er ljóst.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með átta stig í Grindavíkurliðinu að loknum fyrsta leikhluta og var hann að baka Ingvaldi Magna og Jóni Orra nokkur vandræði í KR vörninni. Röndóttir úr Vesturbænum leiddu engu að síður 22-16 að loknum fyrsta leikhluta sem einkenndist af góðri baráttu fremur en gæðabolta.
Darri Hilmarsson var full bráður í upphafi annars leikhluta í liði KR en hann fékk dæmdar á sig tvær villur fyrstu 30 sekúndurnar og var því kominn með þrjár villur. Finnur Freyr kallaði hann því á bekkinn en Darri eins og alþjóð veit er hvergi banginn við það að berjast en var þó ósáttur við þetta hlutskipti sitt. Áfram hélt baráttan í öðrum leikhluta og nokkuð var um mistök á báða bóga, sendingar í rými þar sem huldufólk hafði hreiðrað um sig og annað af þessum meiði sem gerði leikinn ekkert voðalega áferðafallegan.
Stöku langskot vildi þó niður hjá KR-ingum sem náðu upp tíu stiga mun og leiddu 41-31 í hálfleik. Ingvaldur Magni Hafsteinsson var með 10 stig í háflleik í liði KR en Sigurður Gunnar 8 stig í liði Grindavíkur. Flott barátta þennan fyrri hálfleikinn en haustbragur á báðum liðum og nokkuð um mistök.
Íslandsmeistarar Grindavíkur opnuðu síðari hálfleikinn með 6-0 spretti og upphafsmínúturnar gáfu fyrirheit um að síðari hálfleikurinn myndi innihalda aðeins meira smjör en sá fyrri. Gulir náðu upp stemmningu í vörninni og fóru að saxa niður muninn og komust loks yfir 49-47 þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en þá var farið að hitna nokkuð í kolunum. KR-ingar náðu þó forystunni að nýju og leiddu 54-55 fyrir fjórða og síðasta hluta.
Í upphafi fjórða leikhluta voru þeir Pavel Ermolinski og Helgi Magnússon báðir með fjórar villur í liði KR svo ekki mátti mikið út af bera á þeim bænum. Ólafur Ægisson jafnaði leikinn í 58-58 fyrir KR með þrist og það hitnaði í kofanum, trixin fóru að láta á sér kræla, flopp hér og pústrar þar. Eftir því sem herti á dalinn þá óx Jóhann Árni í liði Grindavíkur og Jón Axel Guðmundsson tók af öll tvímæli um hvort hann gæti fótað sig með stóru strákunum.
Kyndingavélarnar Brynjar Þór og Þorleifur fengu dæmdar á sig tæknivillur fyrir sín viðskipti en það voru Grindvíkingar sem leiddu 66-63 þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Klassík frá Darra Hilmarssyni kom KR á sporið þegar hann náði sóknarfrákasti eftir sitt eigið skot og skoraði og kom KR í 67-66. KR lét forystuna ekki af hendi og kláraði verkið 76-70.
Ingvaldur Magni gerði 20 stig í liði KR og Helgi Magnússon bætti við 14 stigum. Hjá Grindavík var Jóhann Árni með 20 stig og Sigurður Gunnar 13. Hart var barist í kvöld, við sáum haustbrag en líka góð tilþrif og æsilegan lokasprett þar sem skipst var á forystunni, þessi tvö lið verða ofarlega í vetur, fátt ef nokkuð kemur í veg fyrir það.
Grindavík-KR 70-76 (16-22, 15-19, 23-14, 16-21)
Grindavík: Jóhann Árni Ólafsson 20/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 13/13 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 11/7 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Ólafur Ólafsson 6/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 5/9 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 4, Hilmir Kristjánsson 2, Ármann Vilbergsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0.
KR: Ingvaldur Magni Hafsteinsson 18/15 fráköst/5 stolnir/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 14/5 fráköst/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 12/10 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 11, Darri Hilmarsson 9/6 fráköst, Ólafur Már Ægisson 8, Jón Orri Kristjánsson 4, Kormákur Arthursson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Illugi Steingrímsson 0, Högni Fjalarsson 0, Hugi Hólm Guðbjörnsson 0.
Texti: JBÓ



