spot_img
HomeFréttirFramleiða atvinnumenn og leika í 1. deild

Framleiða atvinnumenn og leika í 1. deild

Blóðtaka Fjölnis síðustu ár hefur verið allsvakaleg, á því leikur enginn vafi en eitthvað eru menn þó að gera rétt í Dalhúsum því félagið á flesta íslenska körfuknattleiksmenn sem í dag leika atvinnumannabolta erlendis. Fjölnismenn féllu úr Domino´s deildinni á síðustu leiktíð og leika þetta tímabilið í 1. deild, er þetta sofandi risi sem brátt vaknar og tekur íslenskan körfuknattleik heljartökum?
 
Í dag leika þeir Haukur Helgi Pálsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Ægir Þór Steinarsson og Arnþór Freyr Guðmundsson allir í atvinnumennsku, þrír á Spáni en Ægir í Svíþjóð. Þar áður höfðu þeir Ægir Þór og Tómas Heiðar Tómasson verið í námi á skólastyrk í Bandaríkjunum. Ekkert íslensk félag á í dag fleiri virka atvinnumenn en við teljum Hörð sem Fjölnismann í þessu tilfelli eftir að hafa slitið þar barnsskónum og gott betur en það.
 
Íslenskir atvinnumenn í karlaflokki – félag
 
Haukur Helgi Pálsson – Fjölnir
Arnþór Freyr Guðmundsson – Fjölnir
Ægir Þór Steinarsson – Fjölnir
Hörður Axel Vilhjálmsson – Fjölnir
 
Jón Arnór Stefánsson – KR
Jakob Örn Sigurðarson – KR
 
Hlynur Bæringsson – Snæfell
 
Í karlaflokki eru íslenskir atvinnumenn erlendis ekki fleiri þetta tímabilið, þ.e. þeir sem hafa virkan atvinnumannasamning og sinna körfuknattleik eingöngu. Axel Kárason hefur þó getið sér gott orðspor í Danmörku en þar er hann sem námsmaður.
 
Afar athyglisverður árangur hjá Fjölnismönnum þó íslensk félög hafi einhver á einhverjum tímapunkti átt fleiri atvinnumenn eitt tímabilið þá bera Fjölnismenn höfuð og herðar yfir öll önnur félög í dag. Þið kannski takið eftir því að við erum ekki að telja til þá fáu leikmenn hérlendis sem leika með íslenskum félögum en gætu mögulega verið á atvinnumannasamning. Á sama tíma og félagið á flesta virka atvinnumenn erlendis þetta tímabilið leikur Fjölnir í 1. deild. Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.
  
Mynd/ Haukur Helgi Pálsson leikur í næstefstu deild á Spáni.
Fréttir
- Auglýsing -