Kynningarfundur Körfuknattleikssambands Ísland fyrir komandi tímabil í Domino´s deildum karla og kvenna fór fram í Laugardal í dag. Karlaliði KR og kvennaliði Vals var spáð Íslandsmeistaratitlinum en ríkjandi meisturum Keflavíkurkvenna og Grindavíkurkarla var spáð 5. sæti í sínum deildum. Á fundinum var einnig undirritaður nýr samstarfssamningur millum KKÍ og Stöð 2 Sport.
Valskonur fengu 162 stig í kvennaspánni og varð spáð Íslandsmeistaratitlinum en Haukar voru ekki þar langt undan með 159 stig. Í karlaflokki fékk KR 416 stig en næsta lið á eftir, Keflavík, hlaut 355 stig.
Ari Edwald forstjóri 365 miðla og Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ undirrituðu svo nýjan tveggja ára samning milli Stöð 2 Sport og KKÍ þar sem sýnt verður frá leikjum í deildarkeppninni og verður fyrsta útsending nú á fimmtudag þegar Íslandsmeistarar Grindavíkur fá meistaraefnin í KR í heimsókn í Röstina. Þegar hefur nýr körfuboltaþáttur í stjórn Sverris Bergmanns verið kynntur til sögunnar og þá verða þetta um tíu leikir í deildarkeppninni sem sýnt verður frá sem og úrslitakeppnin sem vakið hefur veriðskuldaða athygli síðustu ár. Sú nýlunda verður einnig á borðinu þennan veturinn að sýnt verður frá leikjum í úrslitakeppni kvenna.
Hér eru þeir deildarleikir sem Stöð 2 Sport verður með í beinni útsendingu frá Domino´s deild karla fyrir jól:
10. október: Grindavík-KR
28. október: Njarðvík-Keflavík
4. nóvember: KR-Stjarnan
11. nóvember: Snæfell-Grindavík
25. nóvember: Þór Þorlákshöfn-Skallagrímur
9. desember: Stjarnan-KFÍ

Fyrir fyrstu umferðirnar í Domino´s deildunum og 1. deildum karla og kvenna verður síðan haldin mínútu þögn í minningu Ólafs Rafnssonar forseta ÍSÍ og FIBA Europe og fyrrverandi formanns KKÍ sem var bráðkvaddur fyrr á þessu ári. Við viljum einnig minna á minningarsjóð Ólafs Rafnssonar…nánar um hann hér.
Mynd/ [email protected] – Frá undirritun samnings KKÍ og Stöð 2 Sport á blaðamannafundi KKÍ í Laugardalnum í dag.



