spot_img
HomeFréttirRagnar snéri leiknum við í seinni hálfleik

Ragnar snéri leiknum við í seinni hálfleik

 
Fyrsti leikur Snæfells og Þórs frá Þorlákshöfn orðinn að veruleika í Domino´s deild karla þetta tímabilið. Snæfell sendu Jamarco Warren ekki heim nýverið, heldur héldu honum innan norðvesturkjördæmis og fengu Skagamenna styrk í sitt lið.
 
 
 
Liðin voru jöfn á báðum endum vallarins og hittu ekkert sérlega vel í fyrstu og voru að finna tempóið í leiknum. Tómas Tómasson setti smá tón með þremur 6-9 fyrir Þór en Jón Ólafur og Finnur Atli jöfnuðu í 11-11. Menn fóru að setjann undir lok fyrsta hluta og voru þar Finnur, Jón og Sigurður í farabroddi fyrir Snæfell en Mike Cook var í leiðtogahlutverki hjá Þórsurum og Baldur var sprækur. Staðan 24-19 fyrir heimamenn eftir fyrsta fjórðung sem lögðu vel í vörnina undir lok hlutans.
 
 
Mike Cook hélt uppi skori Þórsara kominn með 18 stig af 29 gegn 34 stigum frá Snæfelli. Menn voru að láta ákvarðanir dómara fara aðeins í sig beggja megin og hafðist tæknivilla á Sveinn Arnar út úr einum slíkum og svo önnur á Inga Þór og máttu Snæfellingar halda áfram að einbeita sér að þeim ágæta leik sem þeir höfðu sýnt framan af. Þórsarar náðu með harðfylgi að jafna 38-38 í meðstreyminu, nýttu það vel. Um leið og Snæfellingar settu fókusinn á leikinn uppskáru þeir 8-0 áhlaup og komust í 46-38 en staðan í hálfleik var 46-40 fyrir Snæfell.
 
 
Hjá Snæfelli var Jón Ólafur kominn með 15 stig og Sigurður Þorvaldsson 9 stig. Í liði Þórs var Mike Cook kominn með 24 stig og ef hann var ekki í sóknarhug þá var lítið í gangi þeim megin, næstur var Nemjana Sovic með 6 stig.
 
 
Jón Ólafur byrjaði seinni hálfleik á þremur en Tómas svaraði strax. Þórsarar jöfnuðu 53-53 með góðum þrist frá Sovic og voru fleiri að svara kallinu í sókninni. Snæfellsmenn voru þvingaðir frá körfunni í sóknum sínum og þéttari vörn Þórsara var að skila góðum leik þegar Snæfell lentu tvígang í að renna út á sóknarklukku og Þór höfðu yfirhöndina 59-68 eftir þriðja fjórðung. Ragnar Nathanaelsson var að bæta verulega í, kominn með 15 stig og 12 fráköst og snéri leiknum við og Nemjana Sovic hafði einnig hleypt sóknargyðjunum lausum.
 
Snæfellingar börðust við að ná tökum á sóknum sínum og tókst með prýði og mikill kraftur fór í að elta 66-79 og róðurinn þyngdist eftir því sem leið á fjórða hluta. Þórsarar höfðu einfaldlega tekið allt annan pól í leikinn og voru allt annað lið í seinni hálfleik og það stuðaði Snæfellinga. Þórsarar héldu velli og pressa Snæfellinga var ekki að taka nein stopp sem gat gefið þeim von þegar um 2 mínútur voru eftir og púðrið á þrotum. Þórsarar tóku sín fyrstu stig í deildinni eftir sigur í Hólminum 81-92.
 
 
Snæfell: Jón Ólafur 28/10 frák. Sigurður Þorvaldsson 12/6 frák. Hafþór Gunnarsson 11. Finnur Atli 8. Sveinn Arnar 7/4 frák. Stefán Karel 6. Kristján Pétur 5/6 frák. Pálmi Freyr 3. Þorbergur Helgi 1. Kristófer Sævarsson 0. Óttar Sigurðsson 0. Snjólfur Björnsson 0.
 
 
Þór: Mike Cook 38. Nemjana Sovic 18/5 frák. Ragnar Nathanaelsson 17/14 frák. Tómas Heiðar 9. Baldur Ragnarsson 6/6 stoðsendingar. Emil Karel 2. Þorsteinn Már 2. Jón Jökull 0. Vilhjálmur Atli 0. Halldór Grétar 0. Davíð Arnar 0. Sveinn Hafsteinn 0.
 
 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson og Jakob Árni Ísleifsson. Alls ekki slakir en mættu smyrja sig nokkuð fyrir framhaldið.
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
Mynd úr safni/ [email protected]
  
Fréttir
- Auglýsing -