spot_img
HomeFréttirHörður: Komnir stutt í okkar undirbúningi

Hörður: Komnir stutt í okkar undirbúningi

„Við erum komnir ótrúlega stutt í okkar undirbúningi og erum langt á eftir, hvað þá á eftir liði sem er búið að vera saman í nokkur ár,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson í samtali við Karfan.is eftir stórt tap með Valladolid gegn Spánarmeisturum Real Madrid í ACB deildinni í gærkvöldi.
 
 
Hörður og Valladolid hafa verið aðeins skamman tíma saman og hefur það að gera með fjármögnun liðsins en hún tókst aðeins seint og um síðir. Við inntum Hörð þó eftir því hvort það hefði ekki verið upplifun að mæta á einn stærsta og sterkasta heimavöll körfuboltaheimsins.
 
„Jú höllin var risastór en það var erfitt að njóta þess að spila á svona velli þegar maður tapar svona stórt,“ sagði Hörður sem í gær leysti bæði stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. „Ég býst þó við því að ég muni mestmegnis spila sem leikstjórnandi. Það vantaði einn Bandaríkjamann í liðið í gær sem er skotbakvörður sem gerði það að verkum að ég leysti líka stöðu skotbakvarðar. Þar sem hann vantaði þá leit sóknin okkar enn verr út þar sem mikið fer í gegnum hann sóknarlega,“ sagði Hörður og kvað sig og sína menn verða fljóta að jafna sig á þessu bakslagi gærdagsins.
 
„Við höfum verið saman sem fullt lið í tvær vikur en Real Madrid í einhver tvö eða þrjú ár.“
  
Fréttir
- Auglýsing -