Í kvöld fer fram heil umferð í Domino´s deild kvenna, þrír leikjanna hefjast kl. 19:15 en stórslagur ríkjandi meistara Keflavíkur og Vals fer fram kl. 19:30 í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda.
Leikir kvöldsins:
19:15 Hamar – Snæfell
19:15 Njarðvík – KR
19:15 Grindavík – Haukar
19:30 Valur – Keflavík
Öll lið deildarinnar eru komin með stig eftir fyrstu tvær umferðarinnar að undanskyldum Haukakonum sem tapað hafa tveimur fyrstu leikjum sínum á Íslandsmótinu. Margra augu munu beinast að Haukakonum í kvöld sem mæta í heimsókn til Grindavíkur en bæði lið eiga það sammerkt að hafa tapað fyrir Keflavík til þessa. Keflvíkingar hlægja að spánni sem birt var fyrir tímabilið sem setti liðið í 5. sæti og grannar þeirra í hinum enda bæjarins, Njarðvíkingar, komu nokkuð á óvart með sigri gegn Haukum enda grænum spáð falli úr deildinni. Þá freista nýliðar Hamars þess að skoppa til baka eftir löðrung í DHL-Höllinni þar sem Hvergerðingar voru með unninn leik í höndunum en féllu á stressprófinu þegar KR skrúfaði upp hitann.
Já, það verður fjör í kvöld, fjölmennum á völlinn!
Mynd/ [email protected] – Lovísa Falsdóttir og Keflvíkingar freista þess að vinna sinn þriðja deildarleik í röð þegar Keflvíkingar mæta í Vodafonehöllina.



