spot_img
HomeFréttirUnnur Lára vann skoteinvígið en Lovísa hirti stigin

Unnur Lára vann skoteinvígið en Lovísa hirti stigin

Unnur Lára Ásgeirsdóttir og Lovísa Falsdóttir mættust í þriggja stiga einvígi í Vodafonehöllinni í kvöld. Unnur Lára lauk leik með sjö þrista, Lovísa gerði sex en fór heim með stigin tvö þar sem Keflavík lagði Val 85-86 í fjörugum spennuslag. Keflvíkingar eru á toppi deildarinnar með þrjá sigra en Valskonur eru í 5. sæti með tvö stig. Bæði lið léku án lykilmanna en Birna Valgarðsdóttir var fjarverandi vegna meiðsla í liði Keflavíkur og Kristrún Sigurjónsdóttir í liði Vals. Þá var Ingunn Embla Kristínardóttir ekki með Keflavík í kvöld en hún er með barni en lék engu að síður í annarri umferðinni með Keflavík.
 
 
Keflvíkingar mættu mun grimmari til leiks í Vodafonehöllinni og komust í 4-18 snemma leiks. Heimakonur í Val voru klaufalegar og ragar gegn vörn gestanna sem voru einnig með algera yfirburði í frákastabaráttunni en Valur átti eftir að hafa betur í þeirri tölfræðilínu í kvöld. Ágúst Björgvinsson náði þó að stappa stálinu í lið Valskvenna undir lok fyrsta leikhluta og gerði vel þegar hann setti Elsu Rún Karlsdóttur inn á völlin en sú lét strax fyrir sér finna og mætti með fjögur Valsstig í röð og heimakonur náðu að minnka muninn í 12-20 með 8-2 lokaspretti í fyrsta hluta og þannig stóðu leikar eftir 10 mínútur.
 
Jaleesa Butler valtaði ein síns liðs yfir Keflavík í upphafi annars leikhluta og minnkaði muninn í 19-22 og loks kom að því að Valskonur náðu forystunni 24-22 og sveiflan þá á um það bil korteri orðin úr stöðunni 4-18 fyrir Keflavík í 24-22 fyrir Val og Andy Johnson þjálfari Keflavíkur var allt annað en sáttur með sínar konur. Bæði lið voru að skipta á milli maður á mann varnar og svæðisvarnar en þeim gekk þó betur í svæðisvörninni en Keflvíkingar voru smá tvístígandi þegar Unnur Lára byrjaði að láta þristum rigna yfir þær. Valskonur héldu forystunni fram að hálfleik og leiddu 40-38 þar sem Jaleesa Butler var komin með 17 stig og þær Elsa Rún og Unnur Lára voru báðar með 8 hjá Val en Porsche Landry var með 10 stig í liði Keflavíkur.
 
Unnur Lára var sjóðheit í liði Valskvenna í kvöld og kom þeim í 46-39 með þriggja stiga körfu en sjö slíkar litu dagsins ljós hjá Unni þetta kvöldið! Valskonur voru með frumkvæðið framan af þriðja leikhluta en áttu oft í vandræðum með Keflvíkinginn Landry sem opnaði vörn þeirra margsinnis auðveldlega upp á gátt. Valskonur voru ekki sama liðið þegar Unnur Lára var utan vallar og Keflvíkingar læddust upp að hlið heimakvenna á meðan Unnur var á tréverkinu og náðu loks forystunni og leiddu 60-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og ljóst að lokaspretturinn yrði bráðfjörugur. 
 
Lovísa Falsdóttir var svo heit fyrir utan hjá Keflvíkingum, hennar fimmti þristur í leiknum kom Keflavík í 71-75 en fram að því höfðu liðin skipst á myndarlegum áhlaupum. Aftur var Lovísa á ferðinni þegar hún kom Keflavík í 77-82 með baneitruðum þrist en Unnur Lára splæsti í sjöundu þriggja stiga körfuna sína þegar hún kom Val í 83-82.
 
Þegar 15 sekúndur voru til leiksloka tókst Val að komast yfir en Bryndís Guðmundsdóttir hokin af reynslu náði sóknarfrákasti í næstu Keflavíkursókn þegar Landry brenndi af sniðskoti og kom Keflavík yfir 85-86 þegar 2,5 sekúndur lifðu leiks. Valskonur tóku þá leikhlé og fengu svo boltann við topp þriggja stiga línu Keflavíkur en innkastið var ekki betra en svo að það ratið beint upp í hendur varnamanna Keflavíkur sem svo fögnuðu innilega sínum þriðja deildarsigri í röð.
 
Skemmtilegur og sveiflukenndur leikur liðanna þar sem Unnur Lára Ásgeirsdóttir og Lovísa Falsdóttir buðu upp á magnað þriggja stiga einvígi og erlendu leikmenn liðanna þær Landry og Butler áttu einnig sterkan leik. Bryndís Guðmundsdóttir virðist einnig í fantaformi um þessar mundir og var kjölfestan í leik Keflavíkur og þá var innkoman hjá Elsu Rún Karlsdóttur inn í Valsliðið í kvöld mjög góð en hún setti 10 stig á 15 mínútum og tók 7 fráköst.
 
Fréttir
- Auglýsing -