spot_img
HomeFréttirNjarðvík kjöldró nýliða Vals

Njarðvík kjöldró nýliða Vals

Njarðvíkingar settu met á tímabilinu í kvöld þegar þeir skelltu niður 13 þriggja stiga körfum í öruggum 106-80 sigri gegn Val í Vodafonehöllinni. Grænir gestirnir gáfu tóninn um leið og leikur hófst og Valsmenn áttu aldrei erindi í Njarðvíkinga. Logi Gunnarsson og Elvar Már Friðriksson gerðu saman 52 af 106 stigum Njarðvíkinga í kvöld á meðan Chris Woods var beittastur í liði Vals með 26 stig og 19 fráköst.
 
 
Elvar Már Friðriksson sló eign sinni á fyrri hálfleik og gerði sjö fyrstu stig grænna áður en heimamenn komust á blað. Njarðvíkingar voru mun sprækari á upphafsmínútunum og tók Ágúst Björgvinsson leikhlé fyrir Val í stöðunni 1-12. Heimamenn náðu þó að bíta smá frá sér, tóku sína eigin 7-0 rispu og minnkuðu muninn í 8-12 en þá stakk Njarðvík af á nýjan leik og leiddu 18-31 eftir fyrsta leikhluta.
 
Njarðvíkingar beittu bæði svæðispressu og svæðisvörn sem Valsmenn réðu illa við, þá komu þeir Óli Ragnar Alexandersson og Ágúst Orrason sterkir inn af tréverki gestanna sem gáfu lítil sem engin færi á sér. Sóknarleikur heimamanna einkenndist af stressi og þeim mun fyrr sem Valur kom boltanum upp í hendurnar á Chris Woods þeim mun betur leið hinum 11 leikmönnum á skýrslu að horfa á hann leika listir sínar og var Woods með 13 stig í hálfleik. Enginn er eyland í þessu eins og maðurinn sagði og leiddu Njarðvíkingar 34-54 í hálfleik.
 
Chris Woods var með 13 stig hjá Val í leikhléi en Elvar Már Friðriksson var með 19 í Njarðvíkurliðinu og Logi Gunnarsson 10.
 
Síðari hálfleikur var aldrei spennandi, Njarðvíkingar settu inn Ólaf Helga Jónsson þegar þriðji hluti var hálfnaður og hann var ekki lengi að stimpla sig inn með þriggja stiga körfu en Ólafur Helgi er að jafna sig eftir krossbandaslit. Á sama tíma var Snorri Hrafnkelsson í borgaralegum klæðum á bekknum, nýbúinn að slíta krossband. Staðan eftir þriðja leikhluta var 52-77 og ljóst að stigin tvö væru á leið í Ljónagryfjuna.
 
Njarðvíkingar slökuðu á wise-grip tönginni í fjórða leikhluta en unnu hann engu að síður 28-29 og leikinn 80-106. Eins og áður greinir fór Chris Woods fyrir Val með 26 stig og 19 fráköst og þá var Kristinn Ólafsson með góða baráttu fyrir heimamenn en aðrir voru full ragir og ekki nóg með að Njarðvíkingar hafi verið betri aðilinn þá börðust þeir einnig meira, vildu lausu boltana og Valsmenn voru einfaldlega ekki klárir í þennan slag. Grænir voru að sama skapi að undirbúa sig fyrir grannarimmu í næstu umferð er þeir mæta Keflavík og voru 11 leikmenn í þeirra hópi sem skoruðu. Með sigrinum í kvöld eru Njarðvíkingar á toppi deildarinnar ásamt KR en bæði lið hafa unnið tvo fyrstu mótsleiki sína.
 
Staðreynd kvöldsins: Friðrik Erlendur Stefánsson, miðherji Njarðvíkinga, lék í 20 mínútur í kvöld, tók ekkert teigskot heldur aðeins eitt þriggja stiga skot og var eini stigalausi Njarðvíkingurinn í kvöld.
 
Vonbrigði kvöldsins: Andleysi Valsmanna og vöntun á baráttuþreki.
 
Við sláum svo botninn í þetta með því að klappa Eddie stuðningsmanni Vals á bakið, ef fleiri væru eins og hann á pöllunum þá yrði heldur betur trallað. Eddie tók sig m.a. til í hálfleik og lofaði Elvar Má Friðriksson í bak og fyrir að honum viðstöddum, Elvar þakkaði pent fyrir sig og sendi honum þumalinn upp. #funeddie

 
  
Fréttir
- Auglýsing -