Keflvíkingar tóku á móti Ísfirðingum í 2. umferð Dominos deildar karla í kvöld. Fyrir leikinn höfðu heimamenn verið á mikilli siglingu og unnið hvern leikinn á fætur öðrum á undirbúningstímabilinu og skilað svo öruggum sigri í hús gegn Stjörnunni í Garðabæ í 1. umferð Íslandsmótsins. Ísfirðingar höfðu farið fremur hægt af stað í sínum undirbúningi og lágu gegn Njarðvíkingum á heimavelli í 1. umferð. Birgir Örn Birgisson var að koma í fyrsta skipti á Sunnubrautina í kappleik eftir að hafa átt farsælan feril með Keflvíkingum seint á síðustu öld þar sem hann gekk iðulega undir gælunafninu “Big Red”.
Byrjunarlið Keflavíkur: Gunnar Ólafsson, Arnar Freyr Jónsson, Micael Craion, Darrel Lewis og Guðmundur Jónsson.
Byrjunarlið KFÍ: Ágúst Angantýsson, Jón Hrafn Baldvinsson, Leó Sigurðsson, Jason Smith og Mirko Virijevic.
Ágúst Angantýsson skoraði fyrstu körfu leiksins úr 3ja stiga skoti úr horninu fyrir gestina áður en Mirko setti niður stökkskot úr teignum. Gunnar Ólafsson setti 4 stig í röð til að laga stöðuna í 4-5. Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar en sóknarleikurinn var ekki mjög áferða-fallegur til að byrja með. Gestirnir tóku leikhlé í stöðunni 13-13 en þá var sóknarleikur heimamanna að byrja að mjatla og auðveldar körfur í teignum frá Michael Craion voru eitthvað sem að Birgir Örn þjálfari KFÍ hafði ekki lagt upp með fyrir leik. Það virtist þó ekki koma að sök því fyrsta karfa eftir leikhlé var ódýr karfa frá Craion skrímslinu gegn bjargarlausum Ágústi Angantýssyni sem skorti nokkur pund í að hafa eitthvað í Craion að segja. Ísfirðingar voru þó ekki komnir til að gefa leikinn og með öguðum sóknarleik og mikilli grimmd í frákastabaráttunni náðu þeir að sækja auðveldar körfur gegn sofandi Keflavíkurvörn sem leit alls ekki vel út í 1. leikhluta. Staðan 20-22 fyrir gestina þegar flautan gall.
Keflvíkingar voru í vandræðum með að finna körfuna fyrir utan teiginn í byrjun annars leikhluta og misnotuðu hvert opið skotið á fætur öðru eftir að hafa náð í röð sóknarfrákasta af nokkru harðfylgi. Þröstur Leó kom með kærkomna baráttu inn af bekknum og sallaði niður 5 stigum í röð, þar af myndarlegu “And 1” til að koma Keflvíkingum í 27-22. Jón Hrafn Baldvinsson fékk svo óíþróttamannslega villu fyrir litlar sakir þegar Almar fór sterkt upp í teignum en Almari tókst þó aðeins að nýta annað vítið og til að gera illt verra klikkaði galopin tröllatroðslu tilraun hans með galopna flugbraut í kjölfarið hrapalega og þriðja sóknartilraun hans í röð fór forgörðum úr tiltölulega opnu færi. Almar að gera allt rétt nema að koma tuðrunni í hringinn en uppskar engu að síður lófaklapp áhorfenda þegar Andy Johnston þjálfari Keflvíkinga skipti honum útaf fyrir Darrel Lewis sem var búinn að vera drjúgur áður en hann fór á tréverkið. Viðleitnisklapp þar á ferð en Almar vissi að hann átti að gera betur.
Jason Smith hélt Ísfirðingum í skottinu á Keflvíkingum með fjögurra stiga sókn þegar hann setti niður erfiðan þrist, brotið á honum og víti að auki sem rataði rétta leið. Mirko var Keflvíkingum erfiður ljár í þúfu og kominn með 16 stig og 8 fráköst (5 í sókn) í hálfleik og Keflvíkingar hreinlega afsöluðu sér allri ábyrgð að stíga manninn út . Jason Smith gerði 13 og Ágúst 8 og kryddaði sinn leik með mikilli baráttu í þágu liðsins. Þröstur, Craion og Darrel voru að draga vagninn fyrir Keflvíkiknga í leikhlutanum sem var nokkuð mistækur hjá báðum liðum. Staðan 45-39 fyrir heimamenn í hálfleik.
3. leikhluti bauð uppá margt það sama og í fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að misnota sóknir, tapa boltum en Keflvíkingar voru þó ávallt skrefinu á undan og 2 þristar með skömmu millibili frá Guðmundi slitu Keflvíkinga aðeins frá gestunum og Ísfirðingar að lenda í vandræðum með vörumerki Keflvíkinga þetta haustið, 2-3 svæðisvörnina. Birgir Örn sá sig knúinn að taka leihlé í stöðunni 60-47. Stærsti munur leiksins til þessa staðreynd. Í raun var afskaplega lítið að frétta af sóknarleik Ísfirðinga og mesta undrun vakti að ekki var reynt að hreyfa svæðisvörnina með samhentu átaki heldur innantómu knattraki og einstæklingsframtaki sem gerði heimamönnum lífið frekar auðvelt í vörninni. Heimamenn spýttu enn frekar í lófana og sókn og munurinn jókst jafnt og þétt. Valur Orri skilaði góðum mínútum á báðum endum vallarins og var að dreifa spilinu vel í þriðja leikhluta. Guðmundur Jónsson setti svo niður enn einn þristinn til að keyra muninn upp í 21 stig áður en leikhlutanum lauk og róðurinn orðinn mjög þungur fyrir gestina.
4. leikhluti var aldrei spennandi og lítið í leik Ísfirðinga sem benti til þess að þeir hefðu einhvern áhuga að gera alvöru atlögu að því að jafna leikinn. Boltarnir sem töpuðust voru hreinlega of margir og mötuðu Keflvíkinga auðveldum körfum. Varamenn fóru að týnast inn af Keflavikurbekknum og fékk Guðmundur Jónsson mikið lof áhorfenda þegar hann var hvíldur þegar tæpar 6 mínútur lifðu leiks. Glimrandi leikur hjá Guðmundi sem sýndi varnarklærnar af miklum eldmóð í kvöld, þá sérstaklega í seinni hálfleik auk þess að tendra upp í 3ja stiga línunni af mikilli snyrtimennsku og bauð hann uppá 6 slíka í 10 tilraunum þegar upp var staðið, 5 af þeim í seinni hálfleik, Guðmundur endaði leik með 27 punkta. Þá ber að nefna framlag Michael Craion sem er akkerið í leik Keflvíkinga og opnar mikið sóknarlega fyrir aðra með hindrunum í bland við að vera ótemja í teignum. Skilaði hann 16 stigum, 12 fráköstum og 4 stolnum boltum.
Síðustu 5 mínúturnar voru eign minni spámanna sem fengu tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Þjálfarateymi Keflvíkinga hvatti sína menn áfram í varnarleiknum fram á lokaflaut og ljóst að stefnan var að halda gestunum undir 70 stigum.
Hjá Ísfirðingum voru þeir Mirko og Jason skástir en frammistaða þeirra í síðari hálfleik var ekki uppá marga fiska frekar en annarra leikmanna en það er alveg ljóst að breiddin er ekki ýkja mikil hjá Ísfirðingum sem fengu til að mynda ekki nema 7 stig frá varamönnum sínum í kvöld á móti 32 frá Keflavíkurbekknum. Akkílesarhæll þeirra var hversu illa samhæfðar sóknaraðgerðir voru á móti svæðisvörninni og virtist Jason Smith til að mynda treysta afskaplega fáum fyrir boltanum á tímabili. Þá eru 31 tapaðir boltar ekki vænlegir til árangurs gegn liði eins og Keflavík.
Lokatölur í Keflavík 95-67. Sanngjarn sigur heimamanna sem halda áfram sigurgöngu sinni en geta engu að síður lagað eitt og annað en líta mjög huggulega út þegar boltinn fær að fljóta í sókninni.
Texti: SFG
Mynd: [email protected]



